Handbolti

Ágúst: Stelpurnar voru stórkostlegar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ágúst Þór Jóhannsson.
Ágúst Þór Jóhannsson. Mynd/Pjetur
Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, var að sjálfsögðu í skýjunum með frábæran 22-21 sigur á stórliði Svartfellinga í fyrsta leik stelpnanna okkar á HM í handbolta í Brasilíu.

„Stelpurnar voru stórkostlega í dag. Þær voru virkilega agaðar og einbeittar í 60 mínútur og það skilaði sér í lokin," sagði Ágúst kátur í viðtali við Sigurð Elvar Þórólfsson eftir leikinn en íslenska liðið var greinilega búið að lesa leik Svartfellinga.

„Við vorum búin að undirbúa okkur vel og nota tímann vel. Ég er með mjög góða áhöfn hérna með mér sem er að vinna í vídeóvinnu og öðru," sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari íslenska liðsins.

„Þetta sýnir bara þennan karakter sem býr í okkar liði og í íslensku þjóðinni. Við höfðum alltaf trú en við vitum að við þurfum góða leiki til að vinna andstæðingana í okkar riðli. Það var glæsilega liðsheild hérna í dag," sagði Ágúst.

„Mig dreymdi ekki um svona úrslit í mínum viltustu draumum þannig að mér líður fáránlega vel. Ég er mjög stoltur í dag en að sama skapi er mikilvægt að koma okkur niður á jörðina fyrir morgundaginn því við eigum mjög erfiðan leik á morgun," sagði Ágúst.

„Ég er gríðarlega stoltur og ánægður með mitt lið. Stelpurnar spiluðu frábærlega og það sem lagt var upp með gekk upp. Það er nýr leikur og nýr dagur á morgun og við þurfum að halda okkur á jörðinni," sagð Ágúst.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×