Handbolti

HM 2011: Karen veðjaði ekki um hver myndi skora fyrsta HM markið

Sigurður Elvar Þórólfsson í Santos skrifar
„Þetta var það síðasta sem við hugsuðum fyrir leikinn," sagði Karen Knútsdóttir þegar hún var spurð að því hvort það hefði verið veðmál í gangi hjá íslenska liðinu hver myndi skora fyrsta mark Íslands í þessari keppni. Karen skrifaði nafn sitt í sögubækurnar með því að koma Íslendingum yfir 1-0 með marki á 3. mínútu í mögnuðum 22-21 sigri gegn Svartfjallalandi.

„Handboltaleikir eru alltaf eins. Þeir eru í 60 mínútur og Gústi þjálfari var búinn að tala við mig fyrir leikinn að ég þyrfti að skjóta meira. Við misstum Rakel út úr liðinu. Hún er frábær skotmaður og leiðtogi. Og það er gott að hafa hana og hún hjálpar mér mikið," sagði Karen eftir leikinn í kvöld.

„Ég held að þessi sigur hafi komið öllum á óvart. Okkur líka. Þetta er aðeins að síast inn núna," sagði Karen en faðir hennar Knútur Hauksson er formaður Handknattleikssambands Íslands. Foreldrar Karenar eru bæði hér í Brasilíu og segir leikstjórnandinn að hún sé vön því að hafa þau með við slíkar aðstæður. „Pabbi þarf að vera en þau hafa alltaf fylgt mér. Það er bara frábært að hafa þennan stuðning."

Karen er í vafa um að landsliðið gefi íslensku þjóðinni smá birtu í dimmum desembermánuði. „Vonandi er þetta skemmtileg afþreying að horfa á okkur í desemberruglinu heima. Við tókum virkilega stórt skref með því að komast á EM og nú HM: Vonandi eru margar stelpur sem eru að líta upp til okkar og hafa trú á sjálfum sér og halda áfram að æfa. Framtíðin er bara björt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×