Handbolti

HM 2011: Noregur tapaði fyrir Þýskalandi - Angóla vann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Hergeirsson.
Þórir Hergeirsson. Mynd/AFP
Norska kvennalandsliðið byrjaði HM kvenna í Brasilíu ekki eins vel og það íslenska því norsku stelpurnar töpuðu 28-31 á móti Þýskalandi í kvöld. Angóla, mótherjar Íslands á morgun, unnu 30-29 sigur á Kína í fyrsta leik sínum.

Þórir Hergeirsson, íslenski þjálfarinn hjá norska liðinu, er án margra lykilmanna á þessu heimsmeistaramóti og norska liðið er að fara í gegnum mikil kynslóðarskipti.

Norska liðið byrjaði leikinn vel og var 7-3 yfir eftir þrettán mínútur og 10-6 yfir eftir 19 mínútur.

Noregur var 14-13 yfir í hálfleik og komst síðan í 16-14 í upphafi seinni hálfeiks. Þýskaland skoraði þá sex mörk gegn einu og tók frumkvæðið í leiknum sem þýsku stelpurnar héldu út leikinn.

Franziska Mietzner skoraði átta mörk fyrir Þýskaland og þær Sabrina Richter og Stefanie Melbeck voru báðar með sex mörk. Linn Jorum Sulland skoraði mest fyrir Noreg eða 6 mörk.

Svíar og Danir byrjuðu hinsvegar á stórsigrum. Sænsku stelpurnar unnu 37-11 sigur á Argentínu og þær dönsku unnu 36-10 sigur á Úrúgvæ.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×