Handbolti

Norðmenn niðurlægðu Kínverja | ótrúlegir yfirburðir

Sigurður Elvar Þórólfsson í Santos skrifar
Mynd/Pjetur
Norðmenn sýndu styrk sinn strax frá upphafi þegar liðið mætti milljarðaþjóðinni Kína í A-riðli heimsmeistaramótsins í handbolta í Santos í Brasilíu í kvöld. Algjörir yfirburðir hjá Þóri Hergeirssyni og liði hans en Selfyssingurinn er þjálfari norska liðsins. Lokatölur 43-16 og fyrsti sigur Noregs á þessu móti staðreynd en liðið tapaði gegn Þjóðverjum í gær.

Kína náði ekki skora mark fyrr en á 11. mínútu en þá höfðu Norðmenn skorað 7 mörk. Tóninn var gefinn, 13 marka munur í hálfleik, 20-7.

Kínverska liðið átti engin svör við leik Noregs. Sóknarleikur Kína er bitlaus, vörnin hriplek og markvarslan engin. Norðmenn keyrðu upp hraðann og skoruðu nánast í hverri einustu sókn. Það var ekki öfundsvert fyrir markverði Kína að standa fyrir aftan þessa vörn.

Xindong Wang þjálfari Kínverja stóð sem furðu lostinn á hliðarlínunni. Og vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Atvinnuöryggið ekkert eftir slíka útreið.

Kínverjar hafa nú tapað báðum leikjum sínum á HM. Angóla vann Kína í gær með minnsta mun, 30-29. Angóla og Ísland eigast við hér í Arena Santos síðasta leiknum í 2. umferð A-riðils. Leikurinn hefst 21.30 og er hann í beinni útsendingu á Stöð 2 sport.

Frönsku Bonaventura systurnar dæmdu leikinn og það vel. Alls eru 6 konur sem dæma á þessu móti, alls 3 dómarapör.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×