Viðskipti innlent

Vilja að FME verði rannsakað vegna aukins rekstrarkostnaðs

Höskuldur Kári Schram skrifar
Fjárlaganefnd Alþingis vill að efnahags- og viðskiptaráðherra rannsaki starfsemi Fjármálaeftirlitsins vegna aukins rekstrarkostnaðar stofnunarinnar á undanförnum árum. Þingmaður Sjálfstæðisflokks segir að stofnunin hafi vaxið óeðlilega mikið.

Tillaga þessa efnis var samþykkt á fundi fjárlaganefndar í gær en það er Morgunblaðið sem greinir frá málinu. Tillagan gerir ráð fyrir að efnahags- og viðskiptaráðherra láti fara fram rannsókn á starfsemi Fjármálaeftirlitsins og fjárþörf stofnunarinnar.

Kristján Þór Júlíusson, þingmaður og einn af þremur fulltrúum Sjálfstæðisflokks í fjárlaganefnd, segir að rekstur stofnunarinnar hafi vaxið hratt á undanförnum árum.

„Við höfum haft fyrirvara á þessum gríðarlega vexti í fjárveitingum til stofnunarinnar. Árið 2010 var um milljarður á fjárlögum til hennar og komið nálægt tveimur milljörðum núna. Þetta er að okkar mati gríðarlega mikill og óðeðlilega hraður og útbólginn vöxtur," segir Kristján.

Kristján segir að þessi mikli vöxtur eigi sér stað á sama tíma og starfsemi á fjármálamarkaði sé að dragast saman.

„Stofnunin er að fara í viðbótarhúsnæði þar sem áætlaður kostnaður við 150 fermetra leigu verði um 67 milljónir króna á ári. Það er verið að bæta við í húsaleigu um tíu milljónum króna og við höfum sett spurningarmerki við þá þætti sem þarna eru á ferðinni og teljum einboðið að það sé farið miklu dýpra ofan í kostnaðargreiningu og áherslur Fjármálaeftirlitsins áður en orðið er við þessum gríðarlegum óskum, sem nema viðbótarfjárveitingu upp á hálfan milljarð króna," segir Kristján.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×