Viðskipti innlent

Ef ekkert verður gert gæti þurft að segja kjarasamningum upp

Stefán Einar Stefánsson, formaður VR.
Stefán Einar Stefánsson, formaður VR.
Verið er að breikka bilið á milli þeirra sem stóla á framfærslu frá ríkinu og annarra í samfélaginu með túlkun ríkisstjórnarinnar á viljayfirlýsingu sinni um hækkun bóta úr almannatryggingum sem undirrituð var ásamt kjarasamningum í vor segir formaður VR. Ef ekkert verður gert er erfitt að halda kjarasamningum í gegnum endurskoðun þeirra í janúar.

Ríkisstjórnin gaf út viljayfirlýsingu í vor sem var forsenda undirritunar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þar var gert ráð fyrir því að bætur úr almannatryggingum myndu hækka í takt við lægstu laun á vinnumarkaði.

Stefán Einar Stefánsson, formaður VR, segir fjárlögin fyrir árið 2012 hins vegar ekki gera ráð fyrir því, en hann og Gylfi Arnbjörnsson, formaður VR, mættu á fund velferðarnefndar í morgun.

„Nú virðist túlkun þessarar yfirlýsingar, eða loforðs, fela í sér að hækka þessar bætur á grundvelli þeirra hækkana sem millitekju- og hátekjuhópar fengu. Í rauninni er verið að breikka bilið á milli þeirra sem þurfa að treysta á ríkið í sínum bótum og annarra hópa. Það er ekki það sem er lagt var upp með 5. maí síðastliðinn," segir Stefán Einar.

Það sé alvarlegt mál ef ríkisstjórnin stendur ekki við viljayfirlýsinguna. Endurskoða eigi kjarasamninga í janúar.

„Það voru forsenduákvæði í samningum sem þurfa að halda í endurskoðun á samningnum sem stendur til 20. janúar næstkomandi. Ein meginforsenda þess var að ríkisstjórnin myndi standa við það loforð frá 5. maí. Ef þingið bregst ekki við ábendingum okkar sem við komum með í morgun þá er samningurinn fallinn um sjálfan sig. Þá verða menn að meta það 20. janúar hvort að það eigi taka samninginn aftur upp með einhverju móti eða hreinlega segja honum upp," segir Stefán Einar að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×