Viðskipti innlent

Mikil ferðagleði Íslendinga, 319.000 hafa farið utan í ár

Meir en hálf milljón erlendra ferðamanna hafa heimsótt Ísland það sem af er árinu. Ferðir Íslendinga utan aftur á móti jafngilda því að hver íbúi landsins hafi farið til útlanda í ár.

Fjallað er um þessa ferðagleði í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Fjöldi erlendra ferðamanna slær öll met í ár en fram til þessa hafa 520.000 manns heimsótt Ísland. Sennilega verður sú tala nálægt 600.000 manns þegar árinu lýkur enda eru nær öll hótel og gistihús borgarinnar fullbókuð yfir jólin.

Á móti kemur að ferðir Íslendinga erlendis hafa farið stigvaxandi frá hruninu 2008. Þannig segir í Morgunkorninu að fleiri Íslendingar hafi látið undan útþrá sinni í nóvember síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra. Slík fjölgun hefur verið stöðugt frá því í nóvember árið 2009, að apríl í fyrra undanskildum.

Í nóvember síðastliðnum fóru rúmlega 26.000 Íslendingar, eða yfir 8% þjóðarinnar, frá landinu um Leifsstöð.  Frá áramótum talið hafa tæplega 319.000 Íslendingar, eða sem nemur allri þjóðinni, ferðast erlendis. Sé tekið mið af árinu 2009 er þetta fjölgun upp á tæp 34%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×