Erlent

Hörð átök í Egyptalandi

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Til harðra átaka kom þegar óeirðarlögregla reyndi að fjarlægja mótmælendur af Frelsistorginu í Kaíró í dag. Þúsundir Egypta höfðu þá safnast saman á torginu annan daginn í röð.

Hundruð her- og lögreglumanna mættu á brynvörðum bílum vopnaðir táragasi og gúmmíkúlum á Frelsistorgið til að hrekja burt þúsundir mótmælenda sem þar voru samankomnir.

Talið er að um fimm þúsund mótmælendur hafi verið á torginu. Þeir vilja að kosningar verði haldnar í landinu sem fyrst og að lýðræðislega kjörin stjórn taki við völdum. Síðan að Hosni Mubarak, fyrrum forseti landsins, var hrakinn úr embætti fyrir níu mánuðum síðan hefur herinn stjórnað landinu.

Þetta er annar dagurinn í röð sem mótmælendur safnast saman á torginu. Til átaka kom einnig í nótt þegar her- og lögreglumenn reyndu að hrekja burt hóp fólks sem þar var samankomið. Þeir kveiktu bæði í tjöldum mótmælenda og brenndu borða. Talið er að um áttahundruð manns hafi særst í átökunum síðustu tvo sólarhringa. Þá hefur lögreglan handtekið á sjötta tug manna.

Átökin þykja endurspegla mikla reiði almennings vegna þess hve langan tíma umbætur í landinu þykja taka svo og því að herforingjastjórnin virðist treg til að láta af völdum. Þrátt fyrir að stjórnin hafi ítrekað lýst því yfir að almennar kosningar verði haldnar hefur hún verið ófáanleg til að gefa upp um hvenær það verður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×