Handbolti

Guðný Jenný þarf að spila í búningi með auglýsingu frá Nýherja

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Auglýsingin frá Nýherja er fyrir ofan HSÍ-merkið á landsliðstreyjunni. Hér er Guðný Jenný í leik með landsliðinu í síðasta mánuði.
Auglýsingin frá Nýherja er fyrir ofan HSÍ-merkið á landsliðstreyjunni. Hér er Guðný Jenný í leik með landsliðinu í síðasta mánuði. Mynd/Anton
Guðný Jenný Ásmundsdóttir þarf eins og aðrir leikmenn íslenska landsliðsins að spila með auglýsingu frá Nýherja þegar hún mun klæðast íslenska landsliðsbúningnum á HM í Brasilíu í næsta mánuði.

Guðný Jenný er aðalmarkvörður landsliðsins og var starfsmaður Nýherja áður en hún var látin fara fyrir að velja HM fram yfir stöðuhækkun sem henni stóð til boða innan fyrirtækisins.

Var henni boðin stöðuhækkunin gegn því að hætta í landsliðinu. Því neitaði Guðný Jenný og því var hún rekin frá Nýherja.

Knútur Hauksson, formaður HSÍ, sagði við Vísi í morgun að ekki hafi verið ákveðið hvort að sambandið ætli að rifta styrktarsamningnum við Nýherja vegna málsins.

„Stjórn HSÍ hefur ekki fjallað um það. Það verður stjórnarfundur í næstu viku og þetta verður eflaust rætt þá. Ég hef sjálfur ekki tekið neina afstöðu til þess,“ sagði Knútur.

Búningarnir eru hins vegar tilbúnir og landsliðið heldur utan í byrjun næstu viku.


Tengdar fréttir

Rekin fyrir að velja landsliðið

Markverði kvennalandsliðsins í handbolta, Guðnýju Jennýju Ásmundsdóttir, var stillt upp við vegg á vinnustað sínum og sagt að velja á milli landsliðsins eða vinnunnar. Þetta kemur fram í Fréttatímanum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×