Viðskipti innlent

Ákvörðun Ögmundar vekur spurningar um ríkisstjórnarsamstarfið

Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra segir að ákvörðun Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra um að hafna beiðni Huangs Nubo um að kaupa Grímsstaði á Fjöllum veki „óhjákvæmilega spurningar um ríkisstjórnarsamstarf Samfylkingar og Vinstri Grænna."

Þetta kemur fram í pistli á heimasíðu ráðherrans þar sem segir að Vinstri Grænum virðist „finnast það sjálfsagt mál að skrifa upp á stjórnarsáttmála og stefnumörkun um mikilvægi erlendrar fjárfestingar, en mæta svo öllum erlendum fjárfestingaráformum með tortryggni og með því að gera einstökum fjárfestum ávallt upp annarleg sjónarmið."

Árni Páll segir að öllu virðist tjaldað til og að tilgangurinn helgi meðalið.

„Í fyrra sætti Magma fordæmingu fyrir að hafa stofnað skúffufyrirtæki um fjárfestingu á Íslandi en í dag er höfuðrökstuðningur fyrir synjun innanríkisráðherra sá að félag í eigu Nubo sé ekki skráð á Evrópska efnahagssvæðinu. Skilaboðin til erlendra fjárfesta eru skýr: Öllu verður snúið á haus til að verjast erlendri fjárfestingu."

Ráðherrann segir að í minnisblaði sem hann sendi innanríkisráðherra hafi ítarlega verið rakið hversu mikilvæg erlend fjárfesting væri fyrir íslenskt efnahagslíf. „Þjóðin er ung og þarf erlent fé. Undanfarna áratugi höfum við byggt alfarið á lánsfé, með hörmulegum afleiðingum. Hrunið hefur kennt okkur að velsæld verður ekki byggð á lánsfé. Þess vegna er erlend fjárfesting nauðsynleg, óháð því hvort Nubo kemur eða fer."

Árni segir ennfremur að staða efnahagsmála sé sérstaklega viðkvæm nú, „þar sem boginn var spenntur til hins ítrasta með gerð kjarasamninga á liðnu vori, þar sem samið var um kjarabætur umfram það sem efnahagslífið stendur nú undir og miklar byrðar lagðar á ríkissjóð. Lélegur gangur í nýfjárfestingu frá gerð þeirra er að valda því að allar líkur eru á að ávinningur af gerð kjarasamninganna verði lítill sem enginn og kauphækkanir brenni upp í verðbólgu að vanda. Einstök fjárfestingaráform hafa því miður oftar en ekki strandað á ríkinu."

Ennfremur segir Árni Páll að ríkisstjórnin hafi verið mynduð um „efnahagslegan stöðugleika, endurreisn og opið hagkerfi og hlýtur að standa við þau markmið."

„Ríkisstjórn undir forystu jafnaðarmanna getur ekki elt sérhagsmuni á kostnað almannahagsmuna né borið ábyrgð á skilaboðum til umheimsins um lokun landsins og ómálefnalegar hindranir viðskipta. Raunsæi í efnahagsmálum er skylda okkar allra hvar í flokki sem við stöndum," bætir hann við og spyr að lokum:

„Er það virkilega þannig að versta efnahagskreppa í 80 ár dugi ekki til að Íslendingar breyti um takt? Er okkur ómögulegt að sameinast um brýnustu verkefnin á sviði efnahagsmála? Getum við ekki kvatt átakastjórnmál gærdagsins?"


Tengdar fréttir

Ögmundur hafnaði Nubo

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, neitaði að Huang Nubo að kaupa jörðina á Grímsstöðum á Fjöllum. Hann tilkynnti þetta á ríkisstjórnarfundi í dag.

Jóhanna Sigurðardóttir: Ákvörðun Ögmundar vonbrigði

"Þessi ákvörðun er tekin út frá mjög þröngri lagatúlkun,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, um ákvörðun Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, um að synja Huang Nubo um leyfi til þess að kaupa jörð á Grímsstöðum á Fjöllum. Ákvörðunin veldur henni vonbrigðum.

Fundað um Nubo á ríkisstjórnarfundi

Ríkisstjórnarfundur stendur nú yfir í stjórnarráðshúsinu en meðal málefna sem eru á dagskrá, samkvæmt heimildum fréttastofu, er umsókn Kínverjans Huangs Nubo um undaþágu frá lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna vegna fjárfestingar á jörðinni Grímsstöðum á Fjöllum.

Talsmaður Nubo: Maður er eiginlega bara undrandi

"Þetta eru vissulega vonbrigði," segir Halldór Jóhannsson, arkitekt og talsmaður Huang Nubos, um ákvörðun innanríkisráðherra að neita eignarhaldsfélagi Nubo að kaupa landið á Grímsstöðum á Fjöllum.

Brjáluð ákvörðun - það er verið að girða landið af og loka því

"Þetta er brjáluð ákvörðun,“ segir Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar á Norðausturkjördæmi, um ákvörðun Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, um að synja Huang Nubo leyfi til þess að kaupa landið á Grímsstöðum á Fjöllum, sem er einmitt í kjördæmi Sigmundar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×