Viðskipti innlent

Atvinnuleysi með minnsta móti

Hafsteinn G. Hauksson skrifar
Atvinnuleysið er einna mest í byggingageiranum á Íslandi
Atvinnuleysið er einna mest í byggingageiranum á Íslandi
Atvinnuleysi á Íslandi var í minni kantinum samanborið við önnur Evrópuríki á síðasta ári. Óvíða var atvinnuleysið minna en á íslensku landsbyggðinni. Þetta kemur fram í nýrri úttekt Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, en þar er svæðisbundið atvinnuleysi síðasta árs í 271 héraði innan 34 landa í Evrópu skoðað.

Atvinnuleysi jókst frá árinu áður í 2/3 þeirra héraða sem skoðuð voru, en Ísland er þar engin undantekning. Á Íslandi var atvinnuleysið 7,6 prósent á síðasta ári. Í gögnum Eurostat kemur fram að atvinnuleysið hafi verið meira en svo í 19 löndum Evrópu, og þar með minna í 14 löndum.

Á íslensku landsbyggðinni var atvinnuleysið aðeins 5,5 prósent, en svæðisbundið atvinnuleysi var óvíða minna í Evrópu. Landsbyggðin kemst þó ekki á topp 10 lista Eurostat yfir besta atvinnuástandið, en þar tróna á toppnum Zeeland svæðið í Hollandi, og Bolzano á Ítalíu, þar sem atvinnuleysið mælist aðeins 2,7 prósent. Versta atvinnuástandið er í Réunion í Frakklandi, þar sem þrír af hverjum tíu eru atvinnulausir.

Í hópi ungs fólks voru þrír af hverjum tuttugu atvinnulausir á Íslandi. Þeir geta þó prísað sig sæla að búa ekki í Ceuta héraðinu á Spáni þar sem hlutfallið var fjórfalt hærra, en hvergi var jafnmikið af ungu fólki atvinnulaust í allri Evrópu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×