Handbolti

Rokkjær framlengdi við Mors-Thy: Einar er súper fyrirmynd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Einar Ingi Hrafnsson.
Einar Ingi Hrafnsson. Mynd/Stefán
Rasmus Rokkjær, ungi unglingalandsliðslínumaðurinn hjá Mors-Thy, er búinn að gera nýjan samning við danska liðið en hann mun þar keppa áfram við íslenska landsliðsmanninn Einar Inga Hrafnsson um línustöðuna. Rokkjær varð heimsmeistari með danska 19 ára landsliðinu í Argentínu í sumar og þykir vera framtíðarmaður í dönskum handbolta.

Einar Ingi varð fyrir því óláni að handarbrotna á landsliðsæfingu á dögunum en hann er búinn að standa sig frábærlega með Mors-Thy í vetur. Rokkjær hrósar líka Einari Inga og ætlar sér að læra mikið af honum.

„Ég er mjög ánægður með að vera áfram hjá Mors-Thy og mér líður eins og heima hjá mér hjá klúbbnum, bæði handboltalega og félagslega. Ég veit að ég mun spila hér með góðum leikmönnum og svo fæ að keppa við stöðuna við Einar sem gerir mig bara betri," sagði Rasmus Rokkjær sem er 19 ára gamall.

„Einar er súper fyrirmynd og ekki síst með það hvernig hann æfir. Ég er því viss um að geta bætt mig mikið ef ég geri eins og hann," sagði Rokkjær en hann skrifaði undir samning til ársins 2014.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×