Handbolti

Slæmt tap Rhein-Neckar Löwen fyrir Lübbecke

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson er þjálfari Rhein-Neckar Löwen.
Guðmundur Guðmundsson er þjálfari Rhein-Neckar Löwen. Nordic Photos / Bongarts
Guðmundur Guðmundsson og lærisveinar hans í Rhein-Neckar Löwen töpuðu í kvöld dýrmætum stigum í toppbaráttu þýsku úrvalsdeildarinnar er liðið tapaði fyrir Lübbecke, 32-31.

Daniel Svensson skoraði sigurmark Lübbecke á lokasekúndu leiksins eftir dramatískan endi en heimamenn skoruðu síðustu tvö mörk leiksins. Löwen var reyndar með boltann þegar skammt var til leiksloka en tapaði honum fjórtán sekúndum fyrir leikslok. Reyndust það afar dýrkeypt mistök.

Löwen var með undirtökin lengst af í leiknum en staðan í hálfleik var jöfn, 17-17. Löwen hafði þriggja marka forystu þegar tíu mínútur voru til leiksloka en heimamenn tryggðu sér sigurinn með öflugum lokaspretti.

Róbert Gunnarsson var ekki á meðal markaskorara Löwen í kvöld en Svensson var markahæstur hjá Lübbecke með sjö mörk. Ivan Cupic spilaði með Löwen á ný eftir meiðsli í kvöld og skoraði sjö mörk, rétt eins og Bjarte Myrhol sem er byrjaður að spila á ný eftir baráttu við krabbamein.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×