Innlent

Icesave ekki lokið

Icesave málinu er ekki lokið þrátt fyrir að heimtur úr þrotabúi Landsbankans dugi fyrir allri kröfunni. Enn standa deilur yfir um málalyktir, en fjármálaráðherra segir að hægt hefði verið að ljúka málinu endanlega með síðustu Icesave samningum.

Skilanefnd Landsbankans tilkynnti í gær að miðað við nýjasta endurmat eigna þrotabúsins dugi eignasafnið fyrir allri Icesave kröfunni og gott betur. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra segir þó að dómstólaleiðin sé enn framundan ef eftirlitsstofnun EFTA heldur málinu til streitu og íslensk yfirvöld fallist ekki á beina ábyrgð ríkisins á innistæðutryggingakerfinu.

Hann segir þó að fyrst hinar góðu heimtur úr búinu standi undir höfuðstól kröfunnar hafi það jákvæð áhrif á deiluna.

Steingrímur segir að heimturnar merki að ef síðustu Icesave samningar hefðu verið samþykktir í þjóðaratkvæðagreiðslu væri málið algjörlega úr sögunni nú án þess að nokkur kostnaður lenti á skattgreiðendum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×