Viðskipti innlent

Fyrrverandi forstjóri Baugs víkur úr stjórn Iceland

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gunnar Sigurðsson, stjórnarmaður í Iceland Foods og fyrrverandi forstjóri Baugs, hefur verið beðinn um að víkja úr stjórninni. Breska blaðið Sunday Telegraph segir að skilanefnd Landsbankans, sem á um 67% hlut í Iceland, muni skipa Lárentsínus Kristjánsson í stjórnina í stað Gunnars. Lárentsínus er formaður skilanefndar Landsbankans.

Eins og kunnugt er stendur til að selja hlut skilanefndar Landsbankans í Iceland fljótlega. Sunday Telegraph segir að mögulegir kaupendur muni fá söluyfirlit innan sex vikna. Víst er að Malcolm Walker, stofnandi Iceland, mun bjóða í fyrirtækið. Hugsanlega munu verslunakeðjurnar Morrison og Sainsbury einnig gera tilboð, en óvíst er hvort samkeppnisyfirvöld heimili það.

Skilanefnd Landsbankans eignaðist hlutinn í Iceland við gjaldþrot Baugs. Talið er að hluturinn sé 1,2 milljarða sterlingspunda virði. Það samsvarar um 227 milljörðum króna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×