Viðskipti innlent

FME gerir athugasemdir við starfsemi verðbréfasjóða ÍV

Fjármálaeftirlitið hefur gert alvarlegar athugasemdir við starfsemi Rekstrarfélags verðbréfasjóða hjá Íslenskum verðbréfum (ÍV). Þetta kemur í framhaldi af athugun sem eftirlitið gerði á félaginu.

Fjallað er um málið á vefsíðu Fjármálaeftirlitsins en þar segir m.a. að gerðar voru athugasemdir við áhættustýringu verðbréfasjóða en öll áhættustýring virðist vera á hendi sjóðsstjóra.

Þá voru gerðar alvarlegar athugasemdir við úttekt og skýrslu innri endurskoðanda en hvort tveggja þótti ófullnægjandi.

Á vefsíðunni segir að Rekstrarfélagið hafi ekki sett sér viðbúnaðaráætlun um órofinn rekstur tölvukerfa. Samkvæmt leiðbeinandi tilmælum skal eftirlitsskyldur aðili skjalfesta og uppfæra áætlun sem miðar að því að halda rekstri upplýsingakerfa gangandi í kjölfar áfalls sem veldur rekstrarstöðvun með þeim afleiðingum að rekstur upplýsingakerfanna getur ekki haldið áfram. Við athugunina kom í ljós að rekstrarfélagið hefur ekki sett sér slíka viðbúnaðaráætlun.

Útvistunarsamningur félagsins við Íslensk verðbréf hf. um útvistun á tækniþjónustu er villandi, en Íslensk verðbréf hf. útvista allri slíkri þjónustu áfram til þriðja aðila. Samkvæmt lögum, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, er rekstrarfélagi heimilt að útvista verkefnum sem tengjast rekstri verðbréfasjóða að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins. Mikilvægt er að Fjármálaeftirlitið viti hvaða aðili það er sem mun fara með útvistuð verkefni og skal það koma skýrt fram í útvistunarsamningi félagsins.

Gerðar voru athugasemdir við áhættustýringu verðbréfasjóða, en þrátt fyrir að áhættustýringu hafi verið útvistað til móðurfélags rekstrarfélagsins virðist öll áhættustýring vera á hendi sjóðsstjóra. Fjármálaeftirlitið telur að ekki sé um eiginlegt eftirlitskerfi að ræða þegar sjóðsstjórar fylgjast sjálfir með að sjóðir í þeirra umsjón fari ekki umfram fjárfestingarheimildir laga og fjárfestingarstefnu. Það að sjóðsstjóri hafi eftirlit með sjálfum sér getur boðið upp á að fjárfest sé umfram heimildir eða í fjármálagerningum sem sjóðnum er ekki heimilt að fjárfesta í. Að sama skapi reiknar sjóðsstjóri út gengi þeirra sjóða sem hann er ábyrgur fyrir. Fjármálaeftirlitið telur að hagsmunaárekstrar geti komið upp þegar sjóðsstjórar hafa eftirlit með áhættustýringu og reikna sjálfir út gengi sjóða í þeirra umsjón.

Rekstrarfélagið er ekki með eigin heimasíðu þar sem fram koma upplýsingar um félagið sjálft og verðbréfa- og fjárfestingarsjóði í rekstri þess. Upplýsingar um sjóði félagsins koma fram á heimasíðu móðurfélags rekstrarfélagsins, Íslenskra verðbréfa hf. Upplýsingar um félagið sjálft eru nánast engar, t.a.m. er ekki að finna upplýsingar um stjórn félagsins eða ársreikninga þess.

Þá er ekki farið að kröfum laga þ.e. ekki er gerð grein fyrir stjórnarháttum félagsins né birt yfirlýsing um stjórnarhætti á heimasíðunni. Fjármálaeftirlitið telur að framangreint samræmist ekki lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, en samkvæmt fyrrnefndu lagaákvæði skulu rekstrarfélög vera óháð vörslufélagi sínu.

Gerðar voru alvarlegar athugasemdir við úttekt og skýrslu innri endurskoðanda, en hvort tveggja þótti ófullnægjandi.

Fjármálaeftirlitið mun í framhaldinu birta gagnsæistilkynningu á heimasíðu sinni eftir að fyrirliggur skýrsla óháðs endurskoðanda um þær úrbætur sem rekstrarfélagið hefur framkvæmt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×