Viðskipti innlent

Tekjuskattur og útsvar samtals yfir 200 milljarðar

Samanlögð álagning almenns tekjuskatts og útsvars nemur 200,9 milljörðum króna og hækkar um 1,4% frá fyrra ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ríkisskattstjóra.

Heildarfjöldi framteljenda við álagningu árið 2011 er 260.764. Þeim fækkar annað árið í röð, nú um 672 eða 0,3%. Fækkun framteljenda er minni í ár en var á fyrra ári en flestir voru framteljendur við álagningu 2009, 267.494 og hefur þeim því fækkað um rúmlega 6.700 síðan þá.

Tekjuskatts- og útsvarsstofn landsmanna árið 2010 nam 812,4 milljörðum króna og hafði dregist saman um 0,5% frá fyrra ári. Skattstofnsins var aflað af rúmlega 237 þúsund manns og hafði fjölgað um 0,6% í þeim hópi og var orðinn næstum því jafn fjölmennur og við álagningu 2009.

Almennur tekjuskattur sem nam 100,6 milljörðum króna var lagður á rúmlega 151 þúsund framteljendur. Af þeirri upphæð fóru 9,4 milljarðar til að greiða útsvar 98 þúsund framteljenda að hluta eða öllu leyti og 445 m.kr. til að greiða fjármagnstekjuskatt rúmlega 6 þúsund framteljenda að hluta eða öllu leyti. Nú greiða 64% þeirra sem höfðu jákvæðan tekjuskatts- og útsvarsstofn tekjuskatt til ríkissjóðs. Þetta hlutfall hefur ekki verið lægra síðan 2002.

Útsvarstekjur til sveitarfélaga nema alls 109,7 milljörðum króna og eru nær óbreyttar milli ára. Þær reiknast af öllum skattstofninum en ónýttur persónuafsláttur greiðir skattinn að hluta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×