Viðskipti innlent

Slitastjórn stefnir einnig Sigurjóni Árnassyni

Lögfræðingi Sigurjóns Árnasonar, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, var birt stefna í gær samkvæmt upplýsingum frá slitastjórn bankans. Stefnan tengist tveimur atvikum sem áttu sér stað í aðdraganda falls gamla Landsbankans.

Þetta kom fram í hádegisfréttum RUV. Þar sagði að slitastjórn og skilanefnd Landsbankans stefndu í síðustu viku þeim Halldóri J. Kristjánssyni fyrrverandi bankastjóra Landsbankans og Elínu Sigfúsdóttur sem var forstöðumaður fyrirtækjasviðs Landsbankans. Elínu var stefnt vegna ábyrgða sem Kaupþing veitti til að tryggja lán úr Landsbankanum, en voru ekki innheimtar.

Halldóri var einnig stefnt vegna þess máls og vegna millifærslna upp á átján milljarða til Straums Burðaráss, nokkrum dögum áður en Landsbankinn varð gjaldþrota.

Samkvæmt upplýsingum frá slitastjórn bankans var lögfræðingi Sigurjóns Árnasonar, fyrrverandi bankastjóra, stefnt í gær vegna sömu mála og Halldóri.

Halldór Backman, lögmaður slitastjórnar Landsbankans, sagði í samtali við RUV að sérfræðingar sem sérstaklega voru ráðnir til starfa til að rannsaka mögulegt misferli í aðdraganda falls bankans hafi nú nánast lokið störfum. Lögfræðingar fari nú yfir gríðarlegt magn upplýsinga sem hafi fengist út úr rannsókninni og munu fleiri stefnur á leiðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×