Innlent

Hátíðarhöld hafin á Suðurlandsveginum

Svona leit Suðurlandsvegur út rétt fyrir klukkan átta í kvöld, en eftir langa bið virðast margir hafa ákveðið að staðsetningin skipti ekki öllu máli og hafið útihátíðarfögnuðinn á veginum.
Svona leit Suðurlandsvegur út rétt fyrir klukkan átta í kvöld, en eftir langa bið virðast margir hafa ákveðið að staðsetningin skipti ekki öllu máli og hafið útihátíðarfögnuðinn á veginum. Mynd/Freyr
Svo virðist sem hátíðarhöld Bestu Útihátíðarinnar séu ekki lengur bundin við Hellu. Hátíðargestir sem enn sitja fastir í umferðarteppunni á Suðurlandsveginum hafa að sögn vegfarenda ákveðið að láta umferðina ekki stöðva sig og fagna nú í bílunum sínum í staðinn.

Lára Ómarsdóttir, sjáandi, var á leið vestur eftir Suðurlandsveginum ásamt fjölskyldu sinni þegar hún hafði samband við fréttastofu og greindi frá því að víða á leiðinni hefðu þau séð fólk drekkandi og dansandi á veginum. Sumir hefðu hangið út um glugga á bílunum og aðrir hefðu jafnvel verið komnir upp á ökutækin.

"Og ímyndaðu þér nú ef Hekla fer að gjósa!" sagði Lára og hló dátt ásamt fjölskyldu sinni sem öllum virtist þykja það hin besta skemmtun að fylgjast með Útihátíðinni fæðast á Suðurlandsveginum.

Þá hringdi annar maður í fréttastofu fyrir stundu sem var staddur við Rauðalæk og staðfesti það að margir sem þarna sætu fastir virtust vera vel við skál. Þá bætti hann því við að það væri líkast til ívið fljótlegra að fara norðurleiðina, vildi fólk á annað borð leggja leið sína austur fyrir fjall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×