Viðskipti innlent

Einn nefndarmaður vildi hækka stýrivexti

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri. Mynd/Anton Brink
Einn nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabankans vildi hækka stýrivexti um 0,25 prósent við síðustu vaxtaákvörðun þann 15. júní, en ákveðið var að halda þeim óbreyttum.

Sá nefndarmaður lagði meiri áherslu á þá þætti sem benda til meiri verðbólguáhættu en hinir. Flestir voru þeir sammála um að veruleg verðbólguáhætta væri áfram fyrir hendi og hætta á að verðbólga verði þrálátari en búist er við.

Í ljósi þess taldi meirihluti nefndarinnar við hæfi að leggja meiri áherslu á aðhald peningastefnunnar í yfirlýsingu nefndarinnar, en við vaxtaákvörðunina fullyrti seðlabankastjóri að líklegra væri að vextirnir myndu hækka en lækka á næstunni. Áfram yrði þó tekið mið af nýlegri þróun og horfur.

Í fundargerð peningastefnunefndarinnar kemur fram að launaþrýstingur sem felst í nýgerðum kjarasamningum kunni að benda til aukinnar verðbólguáhættu, einkum með tilliti til veikrar stöðu krónunnar.

Hins vegar væri verulegur slaki í þjóðarbúskapnum, auk þess sem peningamagn og útlán hefðu dregist saman, og því væru rök fyrir því að halda vöxtum óbreyttum.

Hvort tveggja var talið benda til þess að verðbólguskotið sem nú ríður yfir verði tímabundið, og að verðbólga sígi niður að markmiði þegar áhrif af lágu gengi krónunnar og nýlegum verðhækkunum hrá- og olíuvöru dvína.

Hægt er að lesa fundargerð peningastefnunefndarinnar hér http://sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=8851






Fleiri fréttir

Sjá meira


×