Viðskipti innlent

MP banki kaupir ALFA

MP banki hefur fest kaup á ALFA verðbréfum, samstarfsaðila Credit Suisse á Íslandi, og verður félagið starfrækt sem dótturfélag MP banka. Jafnframt hefur verið gengið frá því að Sigurður Atli Jónsson, forstjóri ALFA verðbréfa, taki við sem forstjóri MP banka af Gunnari Karli Guðmundssyni. Kaupverðið er trúnaðarmál og kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins, að því er fram kemur í tilkynningu.

„Það er öflugur hópur viðskiptavina sem nýtir sér þjónustu ALFA verðbréfa og starfsemi félagsins fellur mjög vel að rekstri MP banka,“ segir Sigurður Atli. „Ég hlakka til að takast á við þau fjölmörgu krefjandi verkefni sem eru framundan hjá eina óháða og sjálfstæða banka landsins.“

Fram kemur í tilkynningunni að ALFA er sjö ára gamalt fjármálaráðgjafarfyrirtæki og með starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki frá 2010. Þjónusta félagsins hefur byggt á samstarfi við einn stærsta banka heims, svissneska alþjóðabankann Credit Suisse, og lýtur fyrst og fremst að alþjóðlegum fjárfestingum. Meðal viðskiptavina ALFA eru flestir stærstu fagfjárfestar landsins; lífeyrissjóðir, fjárfestingafélög og aðrir fjárfestar og er félagið nú með um 15 milljarða króna í eignastýringu fyrir viðskiptavini sína. Jafnframt hefur ALFA unnið ýmis ráðgjafarverkefni fyrir fyrirtæki og opinbera aðila, bæði hér á landi og erlendis.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×