Viðskipti innlent

Fiskmarkaðurinn í Hull hruninn vegna skorts á fiski frá Íslandi

HMP skrifar
Mynd Stefán
Fiskmarkaðurinn í Hull í Bretlandi er hruninn vegna þess að hann fær ekki lengur hráefni frá Íslandi. Þar með lýkur hundrað og fimmtíu ára sögu fiskmarkaðar í borginni.

Íslenska fyrirtækið Atlantic Fresh flytur út íslenskan fisk í umboðssölu til Bretlands og hefur um nokkurra ára skeið verið með allan þann fisk sem kom á fiskmarkaðinn í Hull. En nú hefur fyrirtækið hætt að flytja fisk þangað og þar með lýkur 150 ára sögu fiskmarkaðar í borginni. Magnús Guðmundsson stjórnarformaður Atlantic Fresh segir aðalástæðu þessa vera að mjög hafi dregið úr framboði á ferskum fiski frá Íslandi. Fyrirtækið mun nú eingöngu flytja út fisk á markaðinn í Grimsby.

Sextán menn missa vinnuna á fiskmarkaðnum í Hull og í breskum fjölmiðlum segir að mönnum sé mjög brugðið við þessa ákvörðun. Magnús vonar þó að fiskkaupmenn í Hull kaupi fisk af fiskmarkaðnum í Grimsby í staðinn, enda stutt á milli staðanna.

Meirihlutinn af þeim fiski sem fluttur hefur verið út til Hull hefur verið ýsa, en framboð á henni hefur minnkað mikið undanfarin ár vegna minni kvóta, sem á eftir að minnka enn frekar á næsta fiskveiðiári. Mikið af ýsunni fer á Fisk og franskar staði, sem selja þennan þjóðarrétt Breta. Magnús telur að þjóðarrétturinn muni ekki hækka í verði vegna minna framboðs frá Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×