Viðskipti innlent

MP Banki hefur áhuga á að kaupa BYR

Þorbjörn Þórðarson skrifar
MP banki hefur sett sig í samband við slitastjórn Byrs með það fyrir augum að kaupa sparisjóðinn. Forstjóri Byrs segir að fleiri sýni sparisjóðnum áhuga.

Nítíu og fjögurra prósenta eignarhlutur slitastjórnar Byrs í Byr hf. er til sölu og var ráðgjafarfyrirtækið Arctica Finance til að annast söluferlið. Svokallað rafrænt gagnaherbergi hjá Byr verður opnað á mánudaginn þar sem menn geta skoðað gögn án þess að prenta þau eða taka af þeim afrit.

Þeir aðilar sem hafa sett sig í samband við stjórn Byrs með kaup í huga geta fengið aðgang að gögnunum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er MP banki meðal þeirra sem hefur sett sig í samband við stjórn Byrs með hugsanlega sameiningu í huga. Jón Finnbogason, vildi ekkert tjá sig um málið við Stöð 2. Hann sagði hins vegar að þó nokkrir hefðu sett sig í samband við stjórn Byrs með hugsanleg kaup eða sameiningu í huga.

Skúli Mogensen, stjórnarmaður og stærsti hluthafinn í MP banka með sautján prósenta hlut staðfesti við fréttastofu að bankinn hefði áhuga á Byr. Hann sagði þó of snemmt að spá fyrir um hver niðurstaðan yrði.

„Ég get staðfest að við höfum áhuga á að skoða þetta en það er allt of snemmt að spá fyrir um hvað gerist. Við skoðum öll tækifæri á markaðnum," segir Skúli Mogensen, stjórnarmaður og stærsti hluthafinn í MP banka.

Jón Finnbogason, forstjóri Byrs, fundaði með bæði bankastjórum Íslandsbanka og Landsbanka á síðasta ári með hugsanlega sameiningu í huga. Ekkert varð hins vegar úr þeim áformum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×