Viðskipti innlent

Fyrirtæki Róberts sett upp með nánast sama hætti

Fulltrúar Róberts Wessman gagnrýna Björgólf Thor fyrir að vera með Actavis skráð í gegnum net aflandsfélaga. Alvogen, fyrirtækið sem Róbert stýrir, er sett upp með nánast nákvæmlega sama hætti.

Í fréttum okkar á miðvikudag var haft eftir fulltrúum Róberts Wessman, sem stendur í málaferlum við tvö Novator-félög Björgólfs Thors Björgólfssonar, að Björgólfur Thor hefði komið verðmætustu eign sinni í Actavis í skjól, en eignarhaldið á Actavis er skráð á Tortóla í gegnum sex eignarhaldsfélög í Lúxemborg.

Það er athyglisvert að sama fyrirkomulag virðist vera á skráningu samheitalyfjafyrirtækisins Alvogen sem Róbert stýrir, en það er skráð í gegnum hvorki fleiri né færri en sjö félög, eins og sést á myndinni. Efst er Aztig Pharma Partners ehf. Svo kemur félagið Aztiq Partners A.B í Svíþjóð, því næst Aztiq Pharma Management í Lúxemborg, Aztiq Pharma Partners í Lúxemborg, Alvogen Aztiq Société Civile, þá Alvogen Lux Holdings og loks Alvogen.

Árni Harðarson, forstjóri Salt félagi Róberts, sagði að ástæðan fyrir þessari uppsetningu væri fjöldi ólíkra alþjóðlegra fjárfesta sem ættu hluti í Alvogen. Í ákveðnum tilvikum væri um að ræða skattalegt hagræði fyrrir hluthafa fyrirtækisins að hafa eignarhaldið sett upp með þessum hætti.

Alvogen er í grunninn lyfjafyrirtæki með yfir hundrað ára reynslu, en fyrirtækið er með mikla starfsemi í Bandaríkjunum og vinna fjögur hundruð starfsmenn hjá Alvogen þar. Róbert á í raun ekkert í Alvogen sjálfur, heldur er hann í fyrirsvari fyrir fjárfestingarsjóð í Lúxemborg sem á 40 prósenta hlut í félaginu.

Haustið 2009 boðaði Róbert Wessman aukna uppbyggingu Alvogen á Íslandi en í dag vinna fimmtán starfsmenn hjá fyrirtækinu hér á landi í turninum hér fyrir aftan mig. Árni Harðarson sagði við fréttastofu að þessi áform væru á áætlun en stefnt yrði að því að byggja upp rannsóknarstofu og verksmiðju á Íslandi.


Tengdar fréttir

Segja BTB hafa komið Actavis í skjól í gegnum net aflandsfélaga

Fulltrúar Róberts Wessman fullyrða að Björgólfur Thor hafi komið verðmætustu eign sinni, Actavis, í skjól í gegnum félag á Tortóla-eyju í gegnum flókið net aflandsfélaga. Róbert segir að einkatölvupóstur Björgólfs Thors sýni að áhyggjur hans af erfiðri fjárhagsstöðu fyrirtækja sem hann hefur höfðað mál gegn séu á rökum reistar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×