Viðskipti innlent

Segja BTB hafa komið Actavis í skjól í gegnum net aflandsfélaga

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Fulltrúar Róberts Wessman fullyrða að Björgólfur Thor hafi komið verðmætustu eign sinni, Actavis, í skjól í gegnum félag á Tortóla-eyju í gegnum flókið aflandsfélaga net. Róbert segir að einkatölvupóstur Björgólfs Thors sýni að áhyggjur hans af erfiðri fjárhagsstöðu fyrirtækja sem hann hefur höfðað mál gegn séu á rökum reistar.

Skærurnar hafa gengið á milli Björgólfs Thors og Róberts Wessman undanfarna mánuði. Eitt sinn perluvinir og samherjar sem hrósuðu hvor öðrum á víxl í fjölmiðlum en í dag svarnir óvinir. Ágreininginn má rekja til starfsloka Róberts hjá Actavis í ágúst 2008.

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í gær frá dómi máli sem Róbert höfðaði gegn félögunum Novator Pharma í Lúxemborg og Novator Pharma Holding vegna ógreiddrar 4,6 milljarða króna árangurstengdrar þóknunar. Málinu verður haldið áfram. Lögmaður Róberts segist óttast drátt á málarekstrinum þar sem félögin tvö yrðu hugsanlega gjaldþrota í millitíðinni. Talsmaður Björgólfs Thors vísaði þessu á bug.

„Ekkert eigið fé er eftir í strúktúrnum"

Tölvupóstur sem Björgólfur Thor sendi Róberti sjálfur hinn 7. september 2009, gefur hins vegar tilefni til að ætla að lítið fáist upp í kröfurnar. Því þar segir Björgólfur Thor orðrétt: „Eins og staðan er í dag þá er Actavis yfir skuldsett og getur ekki staðið undir greiðslum á þeim lánum sem hvíla á félaginu. Þá er einnig ljóst að fjárhæð skulda er verulega umfram verðmæti félagsins og því ekkert eigið fé er eftir í strúktúrnum, þ.m.t. í Novator Pharma sárl (þar sem þú ert hluthafi) og Novator Pharma Holding Limited." Það sama kemur fram í bréfi sem Jan Rottler, stjórnarmaður í Novator Pharma, sendi Róbert í ágúst sama ár. Róbert fái því miður ekkert greitt.

Róbert hefur ekki viljað koma í viðtal vegna málsins. Fulltrúar hans segja að Björgólfur Thor hafi hlutnum í Actavis í skjól og fært eignarhaldið til Tortóla-eyju í gegnum sex eignarhaldsfélög. Félögin sex, sem skráð eru í Lúxemborg eru öll undir heitinu Argon, eða skyldum nöfnum. Róbert og hans menn eru ósáttir því eignarhaldið hafi farið út úr Novator Pharma, sem Róbert var hluthafi í. Hann hafi því farið á mis við mikla fjárhagslega hagsmuni og borið skarðan hlut frá borði.

Talsmaður Björgólfs Thors sagði að uppstilling eignarhalds á hlutnum í Actavis hefði verið með vitneskju og samþykki Deutsche Bank sem væri stærsti kröfuhafi félaga í hans eigu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×