Viðskipti innlent

Walker vill kaupa Iceland, selur ekki sinn hlut

Malcolm Walker stofnandi Iceland Foods verslunarkeðjunnar segir að hann vilji kaupa Iceland og muni vissulega ekki selja sinn hlut þótt að annar kaupandi fáist að hlut skilanefndar Landsbankans.

Þetta kemur fram í viðtali Reuters við Walker í dag. „Við höfum enn áhuga á að kaupa reksturinn,“ segir Walker en hann og aðrir æðstu stjórnendur Iceland eiga 24% hlut í keðjunni.

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Morrison verslunarkeðjan sýnt því áhuga að festa kaup á Iceland og hefur 1,5 milljarður punda verið nefnt sem hugsanlegt söluverð. Talið er að hlutur Landsbankans upp á um 66% sé einn og sér andvirði eins milljarðs punda eða tæplega 190 milljarða kr. Glitnir á svo aftur 10% hlut í Iceland.

Walker segir að menn séu aðeins að fara frammúr sér í fréttum um kaupáhugann á Iceland. Keðjan muni áfram verða með sjálfstæðan rekstur og vonandi undir núverandi stjórn. „Við munum annaðhvort eiga hana eða hafa vinsamlegan samstarfsaðila eins og Baugur var og jafnvel Landsbankinn,“ segir Walker.

Í frétt Reuters er haft eftir Mike Dennis greinenda hjá MF Global að markaðurinn sé ekki viss um að Walker geti útvegað sér það fjármagn sem þarf til að kaupa Iceland.  Talið er að hann skorti um hálfan milljarð punda til að geta slíkt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×