Handbolti

Ragnar samdi við FH - Ásbjörn og Ólafur framlengdu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragnar Jóhannsson, Halldór Guðjónsson, Ólafur Gústafsson, Daníel Freyr Andrésson og Ásbjörn Friðriksson.
Ragnar Jóhannsson, Halldór Guðjónsson, Ólafur Gústafsson, Daníel Freyr Andrésson og Ásbjörn Friðriksson. Mynd/Heimasíða FH
Íslandsmeistarar FH í handbolta karla gengu frá samningum við fimm leikmenn í gær, fjórir leikmenn framlengdu samning sinn við félagið og þá gerði Selfyssingurinn Ragnar Jóhannsson, markahæsti leikmaður N1 deildar karla á síðustu leiktíð, eins árs samning við FH.

Ragnar er tvítug örvhent skytta og einn efnilegasti leikmaður landsins. Hann verður mikill liðsstyrkur, sérstaklega þar sem Ólafur Guðmundsson er á leið til Danmerkur í atvinnumennsku. Samkomulag milli félaganna felur í sér að Ragnar er losaður undan samningi sínum við Selfoss og gerir eins árs samning við FH.

Ásbjörn Friðriksson, 22 ára miðjumaður, framlengdi samning sinn til eins árs. Akureyringurinn hefur spilað með FH undanfarin þrjú ár og er að ljúka sínu besta tímabili með liðinu. Hann var kjörinn besti leikmaðurinn á lokahófi FH og var líka valinn í úrvalslið N1-deildarinnar. Ásbjörn hefur einnig náð góðum árangri sem þjálfari í yngri flokkum félagsins og mun nú taka við starfi yfirþjálfara.

Ólafur Gústafsson, 21 árs rétthent skytta, hefur einnig gert nýjan samning við FH til tveggja ára. Ólafur, sem glímt hefur við erfið og langvinn meiðsli, var gríðarlega sterkur fyrir FH-liðið þegar leið á tímabilið og mun taka við skyttustöðunni af fyrrnefndum Ólafi Guðmundssyni.

Daníel Freyr Andrésson, 21 árs markmaður, gerði nýjan þriggja ára samning við FH. Daníel spilaði sífellt stærra hlutverk á nýafstöðnu tímabili og blómstraði í úrslitakeppninni í vor. Daníel er einn alefnilegasti markmaður landsins og verður mikilvægur hlekkur í liði FH á komandi tímabili.

Halldór Guðjónsson, tvítugur örvhentur leikmaður sem bæði getur spilað sem hornamaður og skytta, framlengdi samning sinn við FH. Halldór byrjaði síðastliðið tímabil í U-liði FH sem spilaði í 1. deild. Eftir að hafa farið mjög vel af stað með því liði vann hann sig smám saman upp í aðalliðið þar sem hann vakti verðskuldaða athygli.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.