Viðskipti innlent

Ráðherra hefur engin svör um laun bankastjórnenda

Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra átti engin svör við fyrirspurn Árna Þórs Sigurðssonar þingmanns Vinstri grænna um launagreiðslur til stjórnenda banka, skilanefnda og slitastjórna.

Fyrirspurnin Árna Þórs hljóðaði svo:

1. Hverjar voru mánaðarlegar launagreiðslur til hvers af æðstu stjórnendum (bankastjóra og bankaráðsmanna) Glitnis, Kaupþings og Landsbanka Íslands árin 2005–2008?

2. Hverjar voru mánaðarlegar launagreiðslur til hvers af æðstu stjórnendum (bankastjóra og bankaráðsmanna) Arion banka, Íslandsbanka og Nýja Landsbankans 2009–2011 (febrúarloka)?

3. Hverjar voru mánaðarlegar launagreiðslur til hvers skilanefndarmanns og slitastjórnarmanns Glitnis, Kaupþings og Landsbanka Íslands frá því að þessar nefndir/stjórnir voru settar á laggirnar til febrúarloka 2011?

4. Hvernig eru laun bankastjóra, bankaráða, skilanefnda og slitastjórna ákveðin? Óskað er eftir sundurliðun á hvern mánuð fyrir umrædd tímabil svo að launabreytingar og tímasetningar þeirra komi fram.

Svar ráðherra var eftirfarandi: „Ráðuneytið safnar engum upplýsingum frá bönkum, skilanefndum eða slitastjórnum. Fjármálaeftirlitið og eftir atvikum Seðlabanki Íslands safna upplýsingum frá eftirlitsskyldum aðilum í samræmi við það eftirlitshlutverk sem þessum stofnunum er falið.

Í von um að geta veitt fyrirspyrjanda svör við því sem spurt er um í fyrirspurninni ritaði ráðuneytið Fjármálaeftirlitinu bréf 17. mars sl. og óskaði eftir að stofnunin sendi ráðuneytinu svardrög eftir því sem upplýsingar væru til hjá stofnuninni.

Í svarbréfi Fjármálaeftirlitsins kemur fram að stofnunin hafi ekki aðrar upplýsingar um það spurt er um en þær sem komið hafa fram opinberlega, svo sem í ársreikningum fjármálafyrirtækja.

Í ljósi framangreinds hefur ráðuneytið ekki tök á því að svara þeim atriðum sem spurt er um í fyrirspurninni."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×