Viðskipti innlent

Stuðningsstuðull atvinnulífsins úr jafnvægi

Hafsteinn Hauksson skrifar
Fyrir hvern einn starfsmann í einkageiranum er einn og hálfur sem ýmist vinnur hjá hinu opinbera, þiggur bætur eða er utan vinnumarkaðar. Hlutfallið hefur tekið stökk frá hruni, en Viðskiptaráð segir að snúa þurfi þróuninni við.

Stuðningsstuðull atvinnulífsins mælir þetta hlutfall, og segir til um styrk hagkerfisins til að standa undir opinberri þjónustu, en Viðskiptaráð hefur gert úttekt á stuðlinum á Íslandi.

Hér unnu 125 þúsund manns hjá einkafyrirtækjum á síðasta ári. Á sama tíma unnu 42 þúsund manns hjá hinu opinbera, tæplega fjórtán þúsund þáðu atvinnuleysisbætur, og 137 þúsund voru utan vinnumarkaða, þar á meðal börn, öryrkjar og lífeyrisþegar sem njóta stuðnings sameiginlegra sjóða.

Viðskiptaráð segir þannig að hver einstaklingur á almennum vinnumarkaði hafi staðið að baki 1,54 einstaklingum, fyrir utan sjálfan sig, sem studdur var með opinberu fé eða millifærslum á síðasta ári. Hér er raunar litið fram hjá þeim verðmætum sem falist geta í opinberri þjónustu, en ráðið leggur áherslu á að lægri stuðull merki aðeins að hagkerfið sé betur í stakk búið til að standa vörð um þá sem þurfa á aðstoð að halda.

Þessi stuðull hefur hækkað um 20% frá hruni, sem merkir að færri á almennum vinnumarkaði standa undir fleirum á framfæri hins opinbera. Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, segir þróunina vera til hins verra.

„Það eru færri á almennum vinnumarkaði í einkareknum fyrirtækjum, sem standa á bak við þá sem standa utan vinnumarkaðarins. Við höfum færri til að bera byrðarnar við hina sameiginlegu þjónustu," segir Finnur.

„Við þurfum að snúa þessu hlutfalli við. Það eru tvær leiðir til að gera það. Annarsvegar að skera niður í opinberri þjónustu, en það er verk sem er greinilega mjög erfitt að vinna, og hinsvegar að efla atvinnulífið. Það er það sem við erum að leggja áherslu á," segir Finnur um hið síðarnefnda.

„Það er kannski sérkennilegt að það þurfi að benda á þessa augljósu staðreynd, en þetta samhengi virðist vera að tapast; samhengi atvinnulífs og velferðar á Íslandi," segir Finnur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×