Viðskipti innlent

Stjórnvöld í Liechtenstein semja við Skýrr

„Samningurinn við Liechtenstein er hluti af markvissri útrás Skýrr," segir Gestur G. Gestsson, forstjóri Skýrr.
„Samningurinn við Liechtenstein er hluti af markvissri útrás Skýrr," segir Gestur G. Gestsson, forstjóri Skýrr. Mynd/Pjetur
Skýrr hefur undirritað samning við Liechtenstein um smíði á svokölluðum SIS-II-kerfishluta fyrir Schengen-upplýsingakerfi Liechtenstein. Þetta er stór samningur sem fjöldi hugbúnaðarsérfræðinga hjá Skýrr mun vinna að næsta árið, að sögn forstjóra fyrirtækisins.

Umrætt kerfi er lykilkerfi í hverju Schengen-aðildarríki og veitir upplýsingar um eftirlýsta aðila, vopn, ökutæki og fleira á landamærastöðvum Schengen ríkjanna. „Samningurinn við Liechtenstein er hluti af markvissri útrás Skýrr, en fyrirtækið hefur nú þegar fjölmarga erlenda viðskiptavini og um 500 manns starfa hjá tveimur dótturfyrirtækjum okkar í Noregi og Svíþjóð. Skýrr-fjölskyldan telur nú tæplega 1.100 starfsmenn í fjórum löndum og erlendar tekjur eru mikilvægur hornsteinn í rekstri fyrirtækisins. Verkefni sem tengjast Schengen-samstarfinu eru ákveðinn gæðastimpill á starfsemi Skýrr og það sýnir sig nú hversu mikilvægar þær eru, alþjóðlegar gæða- og öryggisvottanir okkar gegnum ISO 9001 og 27001,“ segir Gestur G. Gestsson, forstjóri Skýrr.

Skýrr hefur unnið með stjórnvöldum í Liechtenstein allt frá árinu 2009 við innleiðingu ýmissa kerfa sem notuð eru við landamæraeftirlit og meðhöndlun vegabréfsáritana.  Skýrr, og áður Kögun og VKS sem nú eru hluti af Skýrr, hafa auk þess sinnt ráðgjöf og þjónustu við upplýsingakerfi Íslands sem tengjast Schengen samstarfinu í fjölda ára.

Upplýsingakerfið og barátta gegn glæpum

Liechtenstein undirritaði samkomulag um aðild að Schengen samstarfinu árið 2008 og er nú á lokastigum inngönguferlisins. Samvinna Schengen-ríkjanna byggir á samningi sem upphaflega var undirritaður í bænum Schengen í Lúxemborg árið 1985. Kjarni Schengen-samstarfsins er annars vegar að tryggja frjálsa för einstaklinga um innri landamæri samstarfsríkjanna og hins vegar að styrkja baráttuna gegn alþjóðlegri afbrotastarfsemi.

Til þess að tryggja framkvæmd Schengen-samningsins hefur verið komið á fót sameiginlegu upplýsingakerfi til þess að gera yfirvöldum aðildarríkjanna mögulegt að hafa aðgang að upplýsingum um fólk og hluti vegna landamæravörslu og annarrar lög- og tollgæslu, auk aðgangs að upplýsingum sem nota þarf við útgáfu vegabréfsáritana og dvalarleyfa. Í kerfinu er lögð mikil áhersla á persónuvernd og gagnaöryggi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×