Viðskipti innlent

Svíar vilja framlengja gjaldmiðlaskiptasamingi við Ísland

Ríkisstjórn Svíþjóðar hefur lagt tillögu fyrir sænska þingið um að gjaldmiðlaskiptasamningur sá sem gerður var við Ísland vorið 2009 verði framlengdur til ársloka í ár.

Samningur þessi var hluti af aðstoð Norðurlandanna við Ísland í kreppunni. Svíþjóð, Noregur og Danmörk samþykktu að veita Íslandi hvert um sig gjaldmiðlaskiptasamning upp á 500 milljónir evra eða samtals 1,5 milljarða evra. Þessir samningar eru fyrir utan þá fjárhagsaðstoð sem Norðurlöndin veita Íslandi í tengslum við áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en sú aðstoð nemur tæpum 1,8 milljörðum evra.

Það er athyglisvert að í þingskjali sem fjármálaráðherra Svía leggur fram með tillögunni um að framlengja gjaldmiðlaskiptasamninginn kemur fram að hingað til hafa Svíar aðeins heimilað notkun á helmingnum af þessum 500 milljónum evra. Gerir tillagan ráð fyrir að virkja samninginn að fullu núna en 500 milljónir evra samsvara tæpum 83 milljörðum króna.

Þá er að finna í þingskjalinu ítrekun á þeirri skoðun Svía að Íslendingar eigi að standa við skuldbindingar sínar, það er greiða Icesaveskuldina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×