Viðskipti innlent

Samþjöppun aukist á bankamarkaði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Páll Gunnar Pálsson er forstjóri Samkeppniseftirlitsins. Mynd/ GVA.
Páll Gunnar Pálsson er forstjóri Samkeppniseftirlitsins. Mynd/ GVA.
Samþjöppun á bankamarkaði hefur aukist verulega frá árinu 2008 með fækkun fjármálafyrirtækja og yfirtöku stærri banka á innlánum sparisjóða. Þetta kemur fram í greinargerð Samkeppniseftirlitsins. Samkeppniseftirlitið segir að svo mikil samþjöppun skapi hættu á samkeppnishömlum sem felist í samhæfðri hegðun keppinauta.

Samkeppniseftirlitð segir jafnframt að aðgangshindranir að bankamarkaði séu miklar og erfitt fyrir neytendur að skipta um banka. Samkeppniseftirlitið telur að nýta eigi það tækifæri sem uppstokkun í kjölfar hrunsins gefur til að auðvelda aðgengi að bankamarkaði og minnka kostnað við flutning viðskiptavina á milli banka. Slíkt auki samkeppni og gerir minni keppinautum betur kleift að eflast.

Samkeppniseftirltið segir að bankakerfið sé of dýrt miðað við núverandi umfang og hagræðing því nauðsynleg. Rekstrarkostnaður Arion banka, Íslandsbanka og Landsbanka hafi hækkað um 7,5 milljarða króna á milli áranna 2009 og 2010, eða um 12% að raungildi. Starfsmönnum hafi fjölgað um 200 á sama tíma.

Samkeppniseftirlitið segir að ná verði fram hagræðingu með öðrum leiðum en samrunum. Samkeppniseftirlitið telji að mjög alvarleg samkeppnisvandamál geti fylgt samrunum viðskiptabanka, að minnsta kosti í þeim tilvikum þar sem einn eða fleiri stóru bankanna er aðili að slíkum samruna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×