Skoðun

Framlag móður

Valgarður Egilsson skrifar
Það er kennt að nýr einstaklingur sem til verður fái helming erfðaefnis síns frá hvoru foreldri. Þetta er ekki alltaf rétt.

Hjá jurtum er dálítill hluti af erfðaefni frumunnar kominn einvörðungu frá kvenblóminu, móðurjurtinni, jafnvel 4-5 %. Þetta er sá DNA-hluti sem er í grænukornunum og hvatberum jurtafrumunnar. Grænukornin hafa í sér drjúgmikið af DNA. Í heild hefur kvenblómið kannski lagt til 52% af erfðaefni í frumum jurtarinnar en karlblómið þá 48 % (af heildar DNA-magni hverrar jurtafrumu).

Í grænukorninu er blaðgrænan, undraefni sem nemur ljósið – bindur orku rauðra geisla sólarljóssins, en varpar grænum geislum frá sér.

Hjá dýrum er sérframlag frá móðurinni minna. Í dýrafrumunni er auðvitað ekkert grænukorn en hvatberarnir innihalda dálítinn DNA-stúf sem erfist einungis frá móður. Í frumum karldýra kemur smá-litningur reyndar frá föður einungis, svokallaður y-litningur.

Fróðlegt er að skoða hvaða hlutverki þetta sérframlag móður gegnir, þ e. erfðaefni hvatbera og grænukorna.

Hvatberar dýrafruma (þar með mannafruma) sjá um framleiðslu á mestum hluta háorku-sameinda, orkumyntinni ATP sem er gjaldgeng í öllum frumum veraldar, og verður einkum til við öndun (bruna) fæðuefna. Hvatberar leggja til þorrann af því ATP sem líkaminn þarf – og að auki verður til varmi við öndunina (brennsluna).

Móðurarfurinn gefur okkur þá nánast allan líkamsvarma okkar dýranna, og í jurtaríkinu leggur móðurarfur til öll grænukorn á jörðu.

Undarlegt að engir vita

upphaf líkamsvarma mannsins.

Einungis frá okkar móður

erfðalínur fornar rita.

Lita jörðu grös og gróður

græna – þegar vorið kemur

– þegar ljósið lífið nemur.

Erfist þetta allt frá móður.

Allt hvað mæður góðar gjörðu

gjöldum þakkir öðru fremur:

allur varmi okkur borinn

– allur litur grænn á jörðu.

Það er þá ekki lítið framlag móðurinnar. Í tungumálinu sér þessa nokkur merki: Jörðin, moldin, er kennd til móður, móðir jörð heitir hún, með gróðri, hlýju og öryggi.

Hins vegar hefur orðið föðurland nánast pólitíska merkingu og jafnvel hernaðarlega merkingu.

Patria, la patrie, Das Vaterland, fædrelandet. Jörðin er kennd við móður.

Ríkið við föður. – Til móður verður rakinn: líkamsvarmi okkar – og allur litur grænn á jörðu.




Skoðun

Sjá meira


×