Skoðun

Playmo-leikurinn í Ráðhúsinu

Guðný Einarsdóttir skrifar
Nú liggja fyrir tillögur um sameiningar skóla og leikskóla í Reykjavík. Málefnið er ofarlega á baugi í umræðunni og eru gagnrýnisraddir háværar. Það er heldur ekki að ástæðulausu. Ég hef sjaldan séð eins vanhugsaðar og illa unnar tillögur um nokkurt málefni. Sem íbúi í Efra-Breiðholti og foreldri barns á leikskólanum Hraunborg finnst mér ég ekki geta orða bundist lengur varðandi tillöguna um sameiningu á leikskóla barnsins míns við leikskólann Ösp. Hvað er það nákvæmlega sem gerir það hagkvæmara fyrir reksturinn að sameina þessa tvo skóla? Ég hef engin svör séð frá ráðamönnum við því.

Óhagkvæmnin er hins vegar hrópandi augljós. Svo dæmi sé tekið er vegalengdin milli þessara tveggja skóla 810 metrar sé ekið í bíl. Á leiðinni er fjölfarin strætóleið og akstursleið m.a. til og frá Fjölbrautarskólanum í Breiðholti, sundlauginni og íþróttafélaginu Leikni. Umferðin er oft mjög mikil og auðveldlega myndast umferðarteppur á þessari leið. Ég sé alls ekki að það skili neinum sparnaði að sameina skóla þar sem svo löng vegalengd er á milli. Það hlýtur að kosta meira umstang og rót fyrir starfsfólkið og kalla á mörg ópraktísk verkefni sem ekki tengjast starfinu með börnunum nokkurn skapaðan hlut.

Ef sparnaðurinn felst í því að fækka starfsfólki er erfitt að sjá hvernig það á að vera hægt þegar svo langt er á milli leikskólanna. Það þarf t.d. einn heilan starfsmann í að keyra matinn á milli skólanna ef aðeins á að elda á öðrum skólanum svo eitthvað sé nefnt. Og ef sparnaðurinn felst fyrst og fremst í því að fækka um þennan tiltekna starfsmann gefur það líka augaleið að þá er verið að skapa enn meiri óstöðugleika og rót. Í tillögunum felst nefnilega að segja upp leikskólastjórunum. Eru þeir ekki fólkið með mestu reynsluna og menntunina inni á leikskólunum? Eru þeir ekki starfsmennirnir sem hafa verið lengst í bransanum? Ef þeim er öllum sagt upp og færri ráðnir í staðinn hlýtur það að bjóða upp á óstöðugleika í starfsliðinu sem er eitthvað sem foreldrar barna á leikskólum kjósa síst af öllu. Allir vita hversu mikilvægt það er fyrir börnin að það séu ekki sífelldar mannabreytingar á leikskólunum.

Það er engu líkara en að ráðamenn hafi hugsað þessar sameiningar eins og einfaldan Playmo-leik. Playmo-kallarnir hætta ekkert að brosa þó að þeir séu hreyfðir eitthvað smávegis til. Því hefur verið haldið fram að ennþá verði til störf fyrir alla sem sagt verður upp inni á leikskólunum og þar með sé málið leyst og allir brosandi ennþá eins og í Playmo-leiknum. Vandamálið er hins vegar að þetta snýst um lifandi fólk en ekki Playmo-kalla. Mun gott starfsfólk sækjast eftir því að vinna áfram á leikskólunum eftir svona niðurlægingarherför sem þessar uppsagnir koma til með að vera?

Á fundi foreldra í Breiðholtsskóla var spurt hversvegna Hraunborg og Hólaborg ættu ekki frekar að sameinast og meðal svaranna sem fengust við því voru þau að þá stæði Öspin eftir ein sem lítill leikskóli á þessu svæði. Ég spyr þá á móti, hvers vegna mega ekki vera litlir leikskólar á þessu svæði? Afhverju þarf að sameina alla leikskólana hér upp í 6-7 deilda leikskóla meðan ekki er hróflað við litlum leikskólum í öðrum hverfum? Er ekki bara kostur að það séu til litlir leikskólar í bland við þá stærri, líka hér í Efra-Breiðholti?

Það er ótal spurningum ósvarað í þessu ferli sem sýnir það auðvitað fyrst og fremst hversu vanhugsaðar og illa unnar þessar tillögur eru. Þær hafa auk þess verið mjög illa kynntar og ekki hefur verið tekið nægilegt tillit til hvers skóla fyrir sig, heldur öllu ýtt af stað í einu og allt sett undir einn hatt. Það kann ekki góðri lukku að stýra. Ég skora á ráðamenn borgarinnar að hverfa frá þessum tillögum og láta börnin okkar í friði.

 






Skoðun

Sjá meira


×