Viðskipti innlent

Risalán til félags í eigu stjórnenda ástæða húsleitar í Lúxemborg

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Húsleitir sérstaks saksóknara og efnahagsbrotadeildar bresku lögreglunnar í Lúxemborg í dag tengjast 28 milljarða króna láni sem Kaupþingi lánaði félagi á Tortóla-eyju sama dag og bankinn fékk áttatíu milljarða króna lán hjá Seðlabanka Íslands sem átti að bjarga rekstri Kaupþings.

Lögreglan í Lúxemborg framkvæmdi fimm aðgreindar húsleitir í dag að beiðni Serious Fraud Office, efnahagsbrotadeildar bresku lögreglunnar, og sérstaks saksóknara á Íslandi í tengslum við rannsókn á starfsemi Kaupþings banka.

Leitað var í Banque Havilland bankanum, sem var áður Kaupþing í Lúxemborg, og samkvæmt heimildum fréttastofu var m.a leitað á heimili Magnúsar Guðmundssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg.

Þrjár húsleitir voru á vegum SFO og tvær á vegum sérstaks saksóknara. Leitað var á fjórum stöðum en bæði embættin réðust í húsleitir í Banque Havilland bankanum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu tengjast húsleitirnar í dag láni upp á 171 milljón evra, jafnvirði 27,5 milljarða króna, sem Kaupþing banki veitti huldufélaginu Lindsor sem skráð er á Tortóla á Jómfrúreyjum en eigandi þess er félagið Otris sem var stýrt af stjórnendum Kaupþings. Lánið var veitt 6. október 2008, sama dag og neyðarlögin voru sett en þennan dag fékk Kaupþing á Íslandi 500 milljónir evra lán, jafnvirði 80 milljarða króna, hjá Seðlabankanum gegn veði í danska bankanum FIH.

Peningarnir sem fengust að láni hjá Seðlabankanum áttu að fara í að bjarga rekstri Kaupþings. Lánið til Lindsor, sem aldrei var borið undir lánanefnd Kaupþings, var hins vegar notað til þess að kaupa skuldabréf af Kaupþingi í Lúxemborg, einstökum starfsmönnum bankans og félagi í eigu Skúla Þorvaldssonar, sem var einn stærsti viðskiptavinur bankans. Grunur leikur á að lánið til Lindsor falli undir umboðssvik í almennum hegningarlögum, en það getur varðað allt að sex ára fangelsi ef sakir eru miklar. thorbjorn@stod2.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×