Viðskipti innlent

Fjármögnun tryggð á kaupum í Sjóvá

Félagið SF1, sem er í eigu nokkurra lífeyrissjóða og annarra fjárfesta, hefur tryggt fjármögnun á kaupum á 834.481.001 hlutum í Sjóvá-Almennum tryggingum hf., sem samsvarar 52,4% af hlutafé félagsins. Í tilkynningu frá Íslandsbanka segir að fjármögnunin sé hluti kaupsamnings milli Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. og SF1 sem gerður var í lok söluferlis sem hófst í janúar á síðasta ári og fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hefur haft umsjón með.

Kaupsamningurinn er háður skilyrðum um tiltekin atriði, þ.á m. samþykki Fjármálaeftirlitsins, Samkeppniseftirlitsins og stjórnar ESÍ, en vonast er til að afhending geti átt sér stað innan þriggja mánaða.

Stærstu eigendur SF1 eru Gildi lífeyrissjóður, SVN eignafélag ehf. (félag í eigu Síldarvinnslunnar hf.), SÍA I (fagfjárfestasjóður undir stjórn rekstrarfélagsins Stefnis, en eigendur SÍA I eru meðal annars stærstu lífeyrissjóðir landsins), Frjálsi Lífeyrissjóðurinn, Lífeyrissjóðir Bankastræti 7 (LSR), Stapi Lífeyrissjóður og fagfjárfestasjóðurinn Stefnir ÍS-5. Aðrir eigendur SF1 eru Festa lífeyrissjóður, EGG ehf., (í eigu Ernu Gísladóttur), Arkur ehf. (í eigu Steinunnar Jónsdóttur), Lífeyrissjóður bænda, Sigla ehf. (í eigu Tómasar Kristjánssonar og Finns Reyrs Stefánssonar) og Draupnir fjárfestingafélag (í eigu Jóns Diðriks Jónssonar). Kaupin eru að fullu fjármögnuð með eiginfjárframlögum og fer enginn hluthafanna með stærri hlut en sem svarar til 10% hlutdeildar í Sjóvá.

Stefnir hf., sem leiddi kaupsamningsferlið fyrir hönd kaupanda, er sjálfstætt starfandi fjármálafyrirtæki sem rekur innlenda og alþjóðlega verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði fyrir einstaklinga og fagfjárfesta. Ráðgjafar kaupanda í ferlinu eru fyrirtækjaráðgjöf Arion banka og lögmannsstofan Lex.

Sjóvá er alhliða vátryggingafélag með rúmlega 28% markaðshlutdeild og um 70 þúsund viðskiptavini. Hjá félaginu starfa um 200 manns og er félagið með starfsemi um allt land. Á síðasta ári voru eigin iðgjöld Sjóvár um 10,9 milljarðar króna. Þeir aðilar sem standa að baki SF1 stefna að því að halda áfram góðum rekstri Sjóvár en fyrirhugað er að skrá fyrirtækið á hlutabréfamarkað innan fárra ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×