Skoðun

Ómálga líf

Valgarður Egilsson skrifar
Það eru nokkur lögmál í lifandi náttúru sem hafa yfir sér einhverja frumfegurð.

a) Lífið er undarlegra en dauðinn. Fyrir ævalöngu var óreiða af hljóðum og tónum í loftinu – allt líflaus óreiða og hafði ekki merkingu. Svo á einhverju stigi kom einhver Beethoven og raðaði upp þessum tónum (sem aðskildir höfðu enga merkingu haft), raðaði þeim upp saman – svo haganlega, að til varð ómæld fegurð, níunda sinfónía Beethovens.

Og: einu sinni voru líka milljón-trilljón atóm og mólekúl … ein líflaus óreiða í heiminum – líflaus með öllu. Einhvern veginn hafa sameindirnar raðast upp saman … og svo nett, að til er orðin lifandi vera – úr þessum trilljón sameindum (sem hver um sig, aðskildar, voru lífvana). 

Frá lífvana efni verður til lifandi maður, hugur – vitund, tilfinningar, hugsun. 

Lífið er undarlegra en dauðinn.

 b) Fóstrið endurtekur (á fyrstu þroskaskeiðum sínum) sögu dýranna – dýrin virðast eiga sama upphaf. Framan af fylgir mannsfóstrið svipaðri leið og fóstur annarra spendýra, oft í smáatriðum sameinda. Síðar fer það að víkja smávegis útaf alfaraveginum – þeirri leið sem flest fóstur fara – og við fæðingu er hægt að greina mun á barni órangútans og manns – samt er munurinn furðulítill. Lítið eitt af erfðaefninu hefur þó tekið breytingum. Það hafa tapast einhverjir stúfar, annars staðar eitthvað bæst við.

Hversu mikið er eftir af dýrinu í okkur? spyr einhver. Svar: Næstum allt.

c) Fegurðina á enginn. Það er aðeins hægt að verða vitni að henni.

d) Ætt þín er rakin aftur – í ljós og mold.

e) Ómálga börn hugsa í myndum, það gera ómálga dýrin líka (staðhæfing höf.).

Skynsemi ómálga barna er mikil – en hún er án tungumáls – sbr. allt það sem kjúklingurinn kann – strax og hann er skriðinn úr egginu, fer hann að tína fræ og velur þau bestu af kostgæfni; hann kann það, og hugsar sinn gang. Hann kann margt fleira. Og það án þess að kunna neitt tungumál. Ályktun: Það þarf ekki allaf tungumál til að hugsa með.




Skoðun

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×