Skoðun

Ólafur Ragnar - hættu!

Haukur Jóhannsson skrifar
Í sjálfu Morgunblaðinu er sagt frá því 25. janúar 2011 að samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins vilji rúm 56 % kjósenda staðfesta nýtt samkomulag um Icesave. Meirihluti stuðningsmanna Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknar vilji staðfesta, 47 % stuðningsmanna Sjálfstæðisflokks. Síðan hefur forysta Sjálfstæðisflokksins snúist til stuðnings við samkomulagið.

Engu að síður ákveður lýðskrumarinn á Bessastöðum, fyrir áeggjan sérvitrings úr Laugarnesi og væns hóps leynilegra áskorenda sem óvíst er hver hefur skráð, að leggja á hvert mannsbarn í landinu um þúsund króna gjald til að halda óþarfar kosningar, ríkisstjórninni til armæðu og skapraunar, þjóðinni til óþurftar og vansa, en sjálfum sér til dýrðar.

Þessi ákvörðun laskar auk þess orðstír Íslands erlendis og mátti hann þó varla við meiri áföllum, veldur lakari lánskjörum og seinkar endurreisn. Við megum ekki við því að bóndinn á Bessastöðum vinni oftar slík skemmdarverk með geðþóttaákvörðun í eiginhagsmunaskyni.

Til að reyna að afstýra því að Bessastaðabóndinn verði sjálfskipaður áfram er brýnt að efna til undirskrifasöfnunar þar sem menn geti undir fullu nafni skorað á Ólaf Ragnar Grímsson að gefa EKKI enn einu sinni kost á sér til að gegna stöðu forseta Íslands.




Skoðun

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×