Skoðun

Virk samkeppni á Íslandi

Magnús Orri Schram skrifar
Alþingi samþykkti nýlega frumvarp til laga sem veitir Samkeppniseftirlitinu heimild til að skipta upp fyrirtækjum ef eftirlitið getur sannað að skipulag eða uppbygging fyrirtækisins komi í veg fyrir, takmarki eða hafi skaðleg áhrif á samkeppni. Við þetta mat liggja hagsmunir neytenda til grundvallar.

Það þýðir að viðkomandi fyrirtæki verður ekki skipt upp ef það er til hagsbóta fyrir neytendur að fyrirtækið sé stórt og njóti stærðarhagkvæmni í innkaupum eða rekstri. Þannig getur eftirlitið ekki nýtt heimildina ef fyrirtækið nýtir hagkvæmni stærðar neytandanum til hagsbóta. Komi til uppskiptingar mun fyrirtæki selja frá sér hluta fyrirtækis og fá endurgjald fyrir.

Frumvarpið er almenn takmörkun á eignarrétti í þágu almannahagsmuna og verður einungis beitt að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og ef kröfu um meðalhóf er mætt. Andstæðingar frumvarpsins á Alþingi fullyrða að stór hluti íslenskra fyrirtækja þurfi að óttast frumvarpið. Það er einkennilegt stöðumat. Ef það er rétt mat, þá er stór hluti íslenskra fyrirtækja að njóta hagnaðar í krafti einokunar á kostnað neytenda og á kostnað virkrar samkeppni.

Ég er ekki sammála því mati, þótt ég telji að víða geti leynst fyrirtæki sem vegna stöðu sinnar hindra virka samkeppni. Sé þetta mat viðkomandi þingmanna hins vegar rétt og stór hluti íslenskra fyrirtækja sé að innbyrða hagnað á kostnað virkrar samkeppni, þá hefur eftirlitið nú tæki til að bregðast við þeirri stöðu. Því má segja að röksemdir viðkomandi gegn frumvarpinu séu bestu hugsanlegu röksemdir með frumvarpinu.




Skoðun

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×