Viðskipti innlent

Greining: Spáir 6,9% verðbólgu í febrúar

Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,8% í febrúar eftir óvænta 0,3% lækkun í janúar. Gangi spáin eftir hækkar ársverðbólga úr 6,6% í 6,9%.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að útsölulok hafa veruleg áhrif til hækkunar í febrúar að mati greiningarinnar, enda voru útsöluáhrif óvenju djúp í janúarmánuði. Samanlagt er gert ráð fyrir að verðhækkun á fatnaði, skóm og húsbúnaði ýmis konar vegna þessa vegi til tæplega 0,6% hækkunar VNV að þessu sinni.

„Þá teljum við að sveiflukenndir liðir á borð við flugfargjöld til útlanda, sem samanlagt urðu til þess að lækka vísitölumælingu janúarmánaðar, muni hafa öfug áhrif nú. Auk þess erum við þeirrar skoðunar að áhrif af hækkun tekjuskatts og ýmissa annarra gjalda á neysluvarning eigi enn eftir að koma fram að nokkru leyti," segir í Morgunkorninu.

„Eldsneytisverð hefur einnig hækkað nokkuð frá miðjum janúar og vegur sú hækkun til 0,05% hækkunar VNV. Síðast en ekki síst er að mati okkar útlit fyrir að ekki verði framhald í bili á hinni snörpu lækkun húsnæðisverðs sem fram kom í janúar. Þó gerum við ráð fyrir að lækkun húsnæðisverðs hafi áhrif til 0,1% lækkunar VNV í febrúar.



Við spáum 1,7% hækkun VNV næstu 3 mánuði og spila útsölulok, síðbúin áhrif skattahækkana og síðustu dreggjar gengisáhrifa vegna falls krónu í fyrra þar stærstu hlutverk. Verðbólgan mun samkvæmt spá okkar ná hámarki í 8,2% í mars, enda fellur þá út úr verðbólgumælingunni mars á síðasta ári þegar VNV lækkaði um 0,6%. Þótt við eigum von á verulegri hækkun VNV í febrúar og nokkurri hækkun í mars teljum við að í kjölfarið muni draga mjög úr hækkunartakti vísitölunnar.

Þegar áhrifum útsöluloka og nýlegra skattahækkana sleppir er fátt sem þrýstir upp verðlagi þessa dagana. Krónan er í grófum dráttum á svipuðum slóðum og hún var um mitt síðasta ár, en reynslan kennir okkur að bróðurparturinn af gengisáhrifum kemur fram í VNV innan sex mánaða. Því verða áhrifin af gengisfalli krónu á fyrri helmingi síðasta að fullu komin fram þegar vetrarútsölum lýkur að mati okkar.

Á meðan ekki verða gerðar umtalsverðar breytingar á gjaldeyrishöftum virðist horfur allgóðar á að krónan muni halda sjó og jafnvel rúmlega það á næstu mánuðum líkt og verið hefur undanfarið. Erlendis er verðlag stöðugt og horfur á litlum verðhækkunaráhrifum úr þeirri áttinni.

Á heimaslóðum teljum við að fasteignaverð muni halda áfram að síga niður á við fram eftir árinu, og enn lengra muni líða þar til það fer að vega til hækkunar á VNV. Síðast en ekki síst eru aðstæður á innlendum vinnumarkaði með þeim hætti að launaþrýstingur mun verða með minna móti næstu misserin. Verði krónan til friðs eru þannig allar líkur á að verðlag hækki hægar hér á landi þegar frá líður en raunin hefur verið undanfarin sjö ár eða svo.

Spá okkar gerir ráð fyrir 3% verðbólgu í lok árs, og að verðbólga muni verða í grennd við 2,5% markmið Seðlabankans á næsta ári. Í spánni er gert ráð fyrir hægfara styrkingu krónu með svipuðum hætti og verið hefur undanfarna mánuði. Vart þarf þó að fjölyrða um hversu mikil óvissa ríkir um þá þróun, og er hún stærsti einstaki óvissuþátturinn í spá okkar."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×