Erlent

Umsátur í Bangkok

Óli Tynes skrifar
Mótmælandi lyftir grátandi barni upp á götuvígi.
Mótmælandi lyftir grátandi barni upp á götuvígi.

Um fimmþúsund mótmælendur hunsuðu lokafrest stjórnvalda í Tailandi til að hætta aðgerðum í gær. Herinn hefur nú umkringt hverfið sem þeir hertókumí Bangkok fyrir fjórum vikum.

Uppreisnarmenn vilja með aðgerðum sínum hrekja ríkisstjórn Thailands frá völdum og fá aftur Thaksin Sinawatra forsætisráðherra sem var steypt af stóli árið 2006.

Hann var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir mútuþægni og aðra spillingu. Leiðtogar mótmælenda segjast nú reiðubúnir til viðræðna við ríkisstjórnina með milligöngu öldungadeildar þingsins.

Ríkisstjórnin hefur ekki svarað þessu tilboði en sagði í síðustu viku að hún hefði ekkert við mótmælendur að tala.

Hundruð barna eru nú á bakvið götuvígin þar sem þeir halda til og talsmaður ríkisstjórnarinnar sakaði þá um að nota þau sem skildi.

Hann sýndi mynd sem tekin var í gær þar sem ungum dreng var haldið á lofti á bakvið eitt götuvígið þar sem hermenn voru að nálgast.

-Þetta er ástæðan fyrir því að við höfum ekki enn ráðist inn í hverfið, sagði hann. -Þeir nota konur og börn til þess að skýla sér á bakvið.

Búist er við að ríkisstjórnin svari til um hugsanlegar viðræður síðar í dag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×