Lífið

Kemur fram í Noregi ásamt Belle & Sebastian og Mew

Ultra Mega Technobandið Stefán kemur fram á tónlistarhátíð í Noregi í sumar. Hér er Siggi söngvari á síðustu Airwaves-hátíð.mynd/hörður sveinsson
Ultra Mega Technobandið Stefán kemur fram á tónlistarhátíð í Noregi í sumar. Hér er Siggi söngvari á síðustu Airwaves-hátíð.mynd/hörður sveinsson

„Við hlökkum mikið til. Þetta er í fyrsta skipti sem við gerum eitthvað erlendis í marga mánuði,“ segir Sigurður Ásgeir Árnason Olsen, söngvari hljómsveitarinnar Ultra Mega Technobandið Stefán (UMTBS).

UMTBS kemur fram á tónlistarhátíðinni Slottsfjell í Noregi um miðjan júlí ásamt hljómsveitunum Belle & Sebastian og Mew. Bandarísku söngkonurnar Kelis og Juliette Lewis koma einnig fram á hátíðinni sem fer að hluta til fram í glæsilegustu tónleikahöll Noregs í bænum Tönsberg, sem svo skemmtilega vill til að er vinabær Ísafjarðar.

„Þetta er mjög undarleg blanda og verður algjör snilld,“ segir Sigurður um þessa sérstöku blöndu listamanna sem koma fram á hátíðinni. UMTBS er ein magnaðasta tónleikasveit landsins og leikur ærslafulla blöndu af teknótónlist og rokki. Belle & Sebastian leikur hins vegar poppaða indítónlist. „Mér finnst Belle & Sebastian alveg frábært band,“ segir Sigurður. „Þeir eru að gera svipaða hluti og við – eru með svona yfirborð. Ég og vinur minn höldum því fram að Belle & Sebastian séu eins og Múmínálfarnir. Fara í dvala á veturna og vakna á sumrin og byrja að spila tónlist. Maður heyrir bara í þeim á sumrin. En þeir eru rosalega satírískir í því. Eru með yfirborðskennd og melódísk lög, en svo eru textarnir um dauðann og hatur.“

Lítið hefur farið fyrir Ultra Mega Technobandinu Stefáni undanfarið, en hljómsveitin kom síðast fram í afmælisveislu Egils Gillzeneggers. Það var að sögn Sigurðar sérstök upplifun, enda hefðbundni áhorfendahópur hljómsveitarinnar víðsfjarri í veislunni. Hljómsveitin hyggst vera virkari á næstunni og horfir til meginlands Evrópu í þeim efnum. „Við erum að leita meira til Evrópu vegna þess að maður yrði hálf þunglyndur ef maður væri alltaf að spila hérna heima. Þetta er svo lítill markaður,“ segir hann.

Sigurður lauk nýlega fyrsta árinu í heimspeki í Háskóla Íslands og hefur verið upptekinn við ýmislegt sem hefur haldið honum frá hljómsveitarlífinu. „Ég hef ekki haft vettvang til að vera ber að ofan eins og hálfviti,“ útskýrir Sigurður, sem er yfirleitt ekki lengi að rífa sig úr að ofan á tónleikum. „En nú er komið sumar og maður getur dustað rykið af þessu.“

atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.