Viðskipti innlent

Seðlabankinn upplýsir ekki um veð í íbúðalánum

Seðlabanki Íslands hafnar því að veita upplýsingar um veð sem bankinn hefur í íbúðalánum sem hann hefur tekið í tengslum við fyrirgreiðslu til einstakra fjármálafyrirtækja.

Þetta kemur fram í svari Gylfa Magnússonar efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar þingmanns Framsóknarflokksins á Alþingi um íbúðalán í eigu Seðlabanka Íslands.

Fyrirspurn Gunnars Braga var í fjórum liðum.

1. Hve mikið á Seðlabanki Íslands af íbúðalánum í krónum talið?

2. Hversu mörg lán eru að baki þessari upphæð?

3. Hvert er bókfært verð þessara lána í bókum bankans?

4. Hvaða banki eða bankar settu húsnæðislán sín að veði í bankanum?



Svarið við lið 1.-3. hljóðar svo: „Seðlabankinn hefur ekki eignast nein íbúðalán og því eru engin slík lán á bókum bankans. Hins vegar hefur bankinn tekið veð í slíkum lánum í tengslum við lánafyrirgreiðslu til einstakra fjármálafyrirtækja."

Svarið við lið 4. hljóðar svo: „Með vísan til ákvæða í 35. gr. laga nr. 36/2001 telur Seðlabankinn sér ekki heimilt að veita upplýsingar um hvaða bankar eða banki hafi sett húsnæðislán sín að veði í Seðlabankanum."

Í fyrrgreindu ákvæði segir m.a. að stjórnendur og starfsmenn Seðlabankans, þar með talin Peningastefnunefnd eru bundin þagnarskyldu um hagi viðskiptavina Seðlabankans og málefni bankans sjálfs. Einnig um vitneskju í starfi sem leynt skuli fara samkvæmt lögum og reglum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×