Viðskipti innlent

Gengið verður nærri gjaldeyrisforðanum á næsta ári

Í Markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa er fjallað um að töluvert hefur verið rætt um gjalddaga skulda ríkissjóðs og orkufyrirtækja á næsta og þar næsta ári. Í september á næsta ári er 300 milljón evra sambankalán ríkissjóðs á gjalddaga og í apríl 2012 er 250 milljón evra lán á gjalddaga.

Verði þessi bréf greidd mun það ganga nærri gjaldeyris varasjóði Seðlabanka Íslands, fáist ekki ný erlend fjármögnun, t.d. í tengslum við áætlun Íslands og AGS. Hins vegar má ljóst vera að Ísland mun reyna að semja um endurfjármögnun þessara skulda, og nær ljóst að engin myndi hugleiða að greiða þær og þannig nær þurrausa gjaldeyrisvaraforðann.

Má því segja að alið hafi verið á hræðsluáróðri í sambandi við áðurnefnda gjalddaga, en þó skal tekið fram að hér er ekki gert lítið úr alvöru málsins. Eigendur áðurnefndra skuldabréfa munu vilja fá fé sitt til baka og því líklegra en ella að vilji þeirra standi til þess að vinna með ríkissjóði Íslands til þess að hann fái staðið undir skuldbindingum sínum.

Til viðbótar má nefna að margir aðrir aðilar munu þurfa að endurfjármagna erlendar skuldbindingar sínar, eins og t.d. Landsvirkjun sem skuldar um 2,6 milljarða dala, þar af 282 milljónir dala á gjalddaga 2011 og um 200 milljónir dala á gjalddaga 2012. Staða aðila er þó misjöfn, en sjóðstreymi ýmissa fyrirtækja er ágætt í erlendri mynt og einnig gæti verið möguleiki að setja fram tryggingar, að því er segir í Markaðsfréttunum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×