Erlent

Bandaríkjamenn hrífast af teboðinu

Christine O'Donnel var himinlifandi með árangurinn.
Christine O'Donnel var himinlifandi með árangurinn. MYND/AP

Teboðshreyfingin svokallaða sækir í sig veðrið í Bandaríkjunum og vann enn einn kosningasigurinn í nótt. Teboðshreyfingin, eða The Tea Party Movement, er grasrótarhreyfing innan Repúblikanaflokksins sem telst enn hægrisinnaðri en flokksforystan. Þessa dagana kjósa repúblikanar á milli frambjóðenda til kosninga til Öldungadeildarinnar á Bandaríkjaþingi sem fram fara í nóvember.

Frambjóðendur á vegum Teboðshreyfingarinnar hafa unnið marga sigra í forkosningunum og í nótt hafði frambjóðandi þeirra Christine O'Donnel betur í baráttunni við Mike Castle í Delaware ríki. Castle var studdur af flokksforystu Repúblikanaflokksins en allt kom fyrir ekki og O'Donnel hafði sigur með 53 prósentum atkvæða.

Hún er talin afar hægri sinnuð, svo mjög raunar, að fyrir nokkrum vikum voru stjórnmálaskýrendur ekki í vafa um að hún ætti enga möguleika í baráttunni við Castle. O'Donnel er fylgjandi almennri byssueign, hún er á móti fóstureyðingum, á móti sköttum og trúir því staðfastlega að sjálfsfróun sé synd, að því er breska blaðið The Guardian greinir frá. O'Donnel bauð sig einnig fram en fékk þá aðeins um tvö þúsund atkvæði.

Fulltrúi Teboðshreyfingarinnar verður einnig frambjóðandi repúblikana í kosningum um ríkisstjórastólinn í New York og áður höfðu meðlimir hreyfingarinnar tryggt sér sigurinn í forkosningum í Nevada, Colorado, Florida, Kentucky og Alaska en Sarah Palin, fyrrverandi varaforsetaefni Repúblikana og Teboðskona, kemur einmitt frá Alaska.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×