Erlent

Tel Aviv í björtu báli -myndband

Óli Tynes skrifar

Hamas samtökin á Gaza ströndinni hafa sent frá sér myndband sem sýnir Tel Aviv í ljósum logum í lokaorrustu Ísraela og islamista.

Samtökin völdu fyrsta dag friðarviðræðnanna milli palestínumanna og gyðinga til þess að senda frá sér myndbandið sem heitir „Apocalypse Tomorrow." Það mætti þýða sem: „Lokaorrustan á morgun."

Myndbandið hefst á baráttufundum ungmenna og skipulagningu innrásarinnar. Svo sést eldflaugum rigna yfir Tel Aviv.

Byggingar eins og Hæstiréttur Ísraels, Hurva bænahúsið og Seðlabankinn standa í ljósum logum.

Þá sjást bílar með palestinska fána keyra eftir Ayalon, aðalgötu borgarinnar.

Myndbandinu lýkur í ísraelskri sjónvarpsstöð sem palestínumenn hafa yfirtekið og eru að búa sig undir að tilkynna um „frelsun" Tel Aviv og Ísraels.

Bæði Hamas og Hizbolla segjast ráða yfir eldflaugum sem hægt er að skjóta á Tel Aviv.

Um leið og myndbandið var sett á netið birtist yfirlýsing frá Ahmed Jabari einum af hernaðarleiðtogum Hamas á Gaza ströndinni.

Þar hótaði hann nýrri hrinu árása til að sýna andstöðu við friðarviðræðurnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×