Erlent

Hóta hryðjuverkum gegn bönkum og bankastjórum

MYND/AP

Hryðjuverkasamtökin the Real IRA hafa hótað því að taka upp árásir að nýju á meginlandi Bretlands eyja. Í þetta skiptið verða bankar og bankastjórar aðal skotmörkin.

Þetta kemur fram í svari frá samtökunum við spurningum breska blaðsins The Guardian, en the Real IRA eru klofningsarmur úr írska lýðveldishernum sem féllst ekki á friðarsamningana sem gerðir voru á Norður-Írlandi á sínum tíma.

Talsmaðurinn segir að bankamenn eigi ekkert gott skilið, þeir hafi mútað stjórnmálamönnum og fyrir það hafi bönkunum verið bjargað með ríkisaðstoð þegar efnahagshrunið dundi yfir. Þetta kalla samtökin glæpaöldu sem yfirstéttin fitni af, á kostnað hinna fátæku.

Þrátt fyrir að talið sé að meðlimir The Real IRA telji aðeins um hundrað manns segja samtökin að sífellt bætist nú í raðir þeirra af ungu óánægðu fólki sem hafi farið illa út úr kreppunni. Samtökin segjast nú hafa endurskipulagt sig og að á næstunni muni árásum á þeirra vegum fjölga til muna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×