Handbolti

Hefði ekki verið aukakast í öðrum leikjum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Guðmundur Guðmundsson fagnar sigri á Dönum.
Guðmundur Guðmundsson fagnar sigri á Dönum. Mynd/DIENER/Leena Manhart
Svíar voru ekki hrifnir af dómgæslunni í leik Króatíu og Íslands í gær ef marka má pistil Patrick Ekwall á Nyhetskanalen í gær.

Hann segir það erfitt að hrífast ekki af íslenska landsliðinu. Liðið nær alltaf að berjast um stóru titlana í handboltaheiminum, sama hversu fámenn íslenska þjóðin er.

„Fyrst unnu þeir Danmörku hér í Austurríki og það leit lengi vel út fyrir að þeir myndu líka vinna Króatíu," skrifaði hann.

„Þeir voru lengi með forystuna í leiknum, allt þar til dómarar leiksins (Tékkar) byrjuðu að týna hvern Íslendinginn á fætur öðrum út af í tveggja mínútna brottvísun - fyrir brot sem hefðu varla verðskuldað aukakast í sumum leikjum."

„Dómararnir voru fyrst ánægðir þegar Króatar voru búnir að jafna leikinn - kemur þetta einhverjum í handboltaheiminum á óvart?"

Hann segir enn fremur að Íslendingar eigi enn góðan möguleika á sæti í undanúrslitum. Liðið hafi sýnt mikinn kraft og vilja á mótinu.

Greinarhöfundur notar svo tækifærið og skýtur lúmsku skoti á sænska landsliðið sem tapaði öllum sínum leikjum í riðlakeppninni.

„Það eina sem er líkt með íslenska landsliðinu og því sænska er að Ólafur Stefánsson er ótrúlega líkur Fredrik Berling hjá sænska ríkissjónvarpinu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×