Viðskipti innlent

Greining dregur úr spá sinni um stýrivaxtalækkun

Greining Íslandsbanka hefur dregið úr spá sinni um stýrivaxtalækkun og reiknar nú með því að peningastefnunefnd Seðlabankans lækki vexti bankans um 0,25-0,50 prósentustig. Í fyrri spá greiningarinnar var gert ráð fyrir 0,50 til 1 prósentustiga lækkun. Vaxtaákvörðnin verður á miðvikudag.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að í síðustu fundargerð peningastefnunefndarinnar og yfirlýsingu nefndarinnar eftir fundinn segir að haldist gengi krónunnar stöðugt eða styrkist, og verðbólga hjaðni eins og spáð er, ættu forsendur fyrir frekari slökun peningalegs aðhalds að vera áfram til staðar.

Gengi krónunnar hefur haldist nokkuð stöðugt frá síðustu vaxtaákvörðun bankans 27. janúar síðastliðinn. Þrátt fyrir að verðbólga hafi aukist nokkuð í febrúar má búast við því að hún verði mjög nálægt spá Seðlabankans um 7,1% verðbólgu á fyrsta fjórðungi þessa árs. Þá eru verðbólguhorfur góðar og má búast við því að verðbólgan verði í um 3% yfir þetta ár.

„Ofangreind stýrivaxtaspá hljóðar upp á minni breytingu á vöxtum en við vorum með áður, en við reiknuðum þá með 0,5-1,0 prósentustiga lækkun," segir í Morgunkorninu. „Ástæðan fyrir því að við búumst við minni vaxtalækkun nú er sá dráttur sem hefur orðið á því að Icesave deilan á milli Breta, Hollendinga og Íslendinga leysist.

Byggði fyrri spá á því að samkomulag yrði komið á vaxtaákvörðunardegi en nú virðast vera litlar líkur á því. Á síðasta fundi peningastefnunefndarinnar kom fram að á meðan óvissa um aðgang Íslands að erlendum lánamörkuðum ríkir er svigrúm nefndarinnar til frekari lækkunar vaxta takmarkað."

Ennfremur segir að greiningin spáði því að Seðlabankinn muni halda áfram í vaxtalækkunum þegar líður á árið. „Spáum við því að bankinn verði kominn með stýrivexti sína í 6,0 6,5% í lok þessa árs. Reiknum við með því að bankinn haldi núverandi bili óbreyttu á milli vaxta á viðskiptareikningum innlánsstofnana og vaxta á veðlánum bankans en þetta bil er 1,5 prósentustig," segir í Morgunkorninu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×