Handbolti

Frakkar Evrópumeistarar eftir fjögurra marka sigur á Króötum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nicola Karabatic lék vel fyrir Frakka og skorar hér eitt marka sinna.
Nicola Karabatic lék vel fyrir Frakka og skorar hér eitt marka sinna. Mynd/DIENER
Frakkar tryggðu sér Evrópumeistaratitilinn með 25-21 sigri á Króötum í úrslitaleik Evrópumótsins í Vín. Þetta er í annað skiptið sem Frakkar verða Evrópumeistarar en þeir unnu einnig á Evrópumótinu í Sviss árið 2006.

Frakkar eru nú Heimsmeistarar (HM 2009 í Króatíu), Ólympíumeistarar (2008 í Peking) og Evrópumeistarar en engri þjóð hefur tekið að vera handhafar allra þessa titla á saman tíma í handbolta karla.

Króatar byrjuðu leikinn mjög vel og voru með frumkvæðið frá fyrstu mínútu leiksins. Króatar komust í 1-0, 4-2 og 6-4 áður en Frakkar jöfnuðu leikinn í 7-7. Frakkar skoruðu síðan aðeins tvö mörk á 12 mínútna kafla og á sama tíma skoruðu Króatar fimm mörk og komust í 12-9.

Frakkar náðu hinsvegar að jafna leikinn fyrir leikhlé með því að skora þrjú síðustu mörk hálfleiksins og breyttu stöðunni úr 12-9 í 12-12 á síðustu tveimur mínútunum.

Króatar skoruðu fyrsta mark seinni hálfleiks en Frakkar fóru síðan á flug líkt og gegn Íslendingum, skoruðu fimm mörk í röð og komust fjórum mörkum yfir, 17-13.

Króatar náðu að minnka muninn niður í eitt mark. 18-19, þegar 12 mínútur voru eftir en nær komust þeir ekki. Frakkar svöruðu með þremur mörkum í röð og lönduðu sögulegum sigri.

Nikola Karabatic skoraði 6 mörk fyrir Frakka og Luc Abalo var með fjögur mörk. Thierry Omyer varði þrjú víti í leiknum og munaði um minna. Vedran Zrnic skoraði mest fyrir Króatíu eða sjömörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×